Ráðherrar sem tapa

08.02.2018

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 8. febrúar 2018.

Um fátt er meira rætt þessa dagana, í þingsölum sem annars staðar, en að dómsmálaráðherra hafi tapað máli í Hæstarétti vegna embættisfærslu sinnar. Um hitt er minna talað, að á undanförnum misserum hefur íslenzka ríkið ítrekað tapað dómsmálum vegna embættisfærslna landbúnaðarráðherra.

Landbúnaðarráðherra hefur undanfarin ár lagt matarskatt á almenning í formi útboðsgjalds, sem leggst á tollfrjálsa innflutningskvóta á búvörum frá Evrópusambandinu. Ráðherrann var þar í þeirri stöðu að hafa um það val að leggja þennan skatt á almenning eða sleppa því. Þessu valdi beitti ráðherrann iðulega með þeim hætti að hann kaus að leggja þennan skatt á íslensk heimili, svo nemur hundruðum milljóna króna árlega.

Fyrirkomulag gjaldtökunnar var dæmt ólögmætt í Hæstarétti í desember 2015. Ríkið hafði þá gert lítilsháttar breytingu á henni eftir að samhljóða dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í marz sama ár. Það taldi þáverandi landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, duga til að gjaldtakan stæðist stjórnarskrá og sakaði höfund þessa pistils um að fara með rangt mál þegar hann benti á að gjaldtakan væri áfram ólögmæt.

Ráðherrann fyrrverandi hefði betur hlustað á þau varnaðarorð, því að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í nóvember að sú breyting hefði ekki heldur verið í samræmi við stjórnarskrá. Ríkið hefur ákveðið að áfrýja ekki þeim dómi og hefur enn verið gerð smábreyting á búvörulögunum. Ætla má að vegna þessara samtals sex mála, sem ríkið hefur tapað fyrir dómstólum, muni ríkissjóður þurfa að endurgreiða um þrjá milljarða króna í oftekna skatta.

Eins og áður sagði hefur þetta ekki farið hátt. Gjaldtakan heldur áfram og enginn hefur spurt nýjan landbúnaðarráðherra hvort hann hyggist bæta úr því eða halda áfram kerfisbundnum brotum og taka sénsinn á að verða enn einn ráðherrann sem tapar dómsmáli um útboðsgjald.

Nýjar fréttir

Innskráning