Fjármálaráðuneytið birti í dag fréttatilkynningu, þar sem boðað er að útboð á flugfarmiðum fyrir stjórnarráðið fari fram í febrúar. Í framhaldinu verði flugfarmiðaviðskipti annarra ríkisstofnana boðin út.
Félag atvinnurekenda sendi fjármálaráðuneytinu bréf í fyrradag þar sem ítrekuð var fyrirspurn frá því fyrir tveimur mánuðum um hvað útboðinu liði. „Við fögnum því að fá loksins einhver viðbrögð úr ráðuneytinu. Það er fagnaðarefni að hreyfing sé að komast á málið eftir meira en þriggja ára brot ríkisins á lögum um opinber innkaup,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að fjármála- og efnahagráðuneytið hafi undirbúið útboðið í samstarfi við önnur ráðuneyti, Rekstrarfélag stjórnarráðsins, Fjársýslu ríkisins og Ríkiskaup. Unnin hafi verið ýtarleg greining á ferðatilhögun starfsmanna Stjórnarráðsins til þess að meta hvaða þarfir útboð á farmiðakaupum þarf að uppfylla. Meðal annars hafi verið kannaðir helstu áfangastaðir, framhaldsflug, lengd ferða og tímasetningar og fundað hafi verið með fulltrúum stærstu seljenda.
„Ráðuneytið áformar að þegar búið er að bjóða út flugfarmiðakaup fyrir Stjórnarráðið vinni nýskipuð verkefnisstjórn um nýjar áherslur í opinberum innkaupum að sambærilegri útfærslu fyrir stofnanir ríkisins,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.