Ráðuneyti rökstyður ákvörðun sína – og þó ekki

06.05.2015

Innfluttir ostarAtvinnuvegaráðuneytið hefur sent innflutningsfyrirtækjum og Félagi atvinnurekenda bréf og beðist afsökunar á að hafa ekki rökstutt þá ákvörðun sína að hafna endurgreiðslu á útboðsgjaldi vegna innflutningskvóta á búvörum.

Þrjú fyrirtæki höfðu farið fram á endurgreiðslu útboðsgjalds, sem þau höfðu greitt fyrirfram fyrir innflutningsheimildir ársins 2015 sem þau hafa enn ekki nýtt. Kröfu sína byggðu þau á þeirri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 17. mars síðastliðinn að útboðsgjaldið væri ólögmætur skattur og andstæður stjórnarskrá.

Ráðuneytið hefur nú lagt fram rökstuðning fyrir höfnun sinni. Hann er svohljóðandi: „Íslensk stjórnskipun er byggð á þeirri grundvallarreglu að stjórnsýslan sé bundin af lögum. Sú regla er nefnd lögmætisreglan. Í henni felst að ákvarðanir og/eða athafnir stjórnvalda verða að eiga sér viðhlítandi stoð í lögum og vera í samræmi við lög. Við úthlutun á tollkvóta fyrir árið 2015 fór ráðherra eftir lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum þegar það leitaði tilboða í heimildir til innflutnings. Samkvæmt 65. gr. laganna hefur ráðherra val um tvær leiðir þegar kemur að því að úthluta tollkvóta þegar umsóknir berast um meiri innflutning en nema tollkvóta vörunnar, láta hlutkesti ráða úthlutun eða leita tilboða í heimildir til innflutnings. Hér er um gildandi lög að ræða og var ákvörðun ráðherra í samræmi við þau. Ráðuneytið telur því að krafa yðar um endurgreiðslu sé ekki í samræmi við lög.“

Hér skautar atvinnuvegaráðuneytið býsna létt yfir þá staðreynd, að Héraðsdómur Reykjavíkur telur einmitt umrædd ákvæði í 65. grein búvörulaganna ganga gegn stjórnarskránni. Niðurstaða dómsins er að með því að velja útboðsleiðina sé ráðherrann að ákveða skatt, sem hann hafi ekki heimild til að leggja á samkvæmt stjórnarskránni.

„Það eru í raun engin rök í málinu að ráðuneytið hafi farið eftir lögunum. Kjarni málsins er að dómstóllinn hefur kveðið upp úr um að þessi ákvæði laganna ganga gegn stjórnarskránni. Það er eins og atvinnuvegaráðuneytið neiti að skilja það og grípa til aðgerða til að virða niðurstöðu dómsins,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Fullnægjandi rökstuðnings krafist
Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður fyrirtækjanna sem um ræðir, hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu eftirfarandi svar við hinum svokallaða rökstuðningi:

„Þessi rökstuðningur er bersýnilega ófullnægjandi enda stenst hann í engu þær lögbundnu kröfur sem til hans eru gerðar.

Fyrir liggja þrír dómar héraðsdóms þess efnis að umrætt lagaákvæði, sem gjaldtakan grundvallast á, samrýmist ekki stjórnarskránni og sé því ólögmætt. Það þarf vart að upplýsa ráðuneytið um það að stjórnarskráin er rétthærri en almenn lög og forsenda þess að lög geti haft réttaráhrif samkvæmt efni sínu er sú að þau samþýðist stjórnarskránni. Það verður ekki hjá því komist fyrir ráðuneytið að rökstyðja af hverju það telur sér heimilt að beita lögum sem uppfylla ekki þetta ófrávíkjanlega skilyrði. Yfirborðskenndar útlistanir á lögmætisreglunni, sem gengur vitaskuld út frá því að lög séu lögmæt og samþýðanleg stjórnarskrá, duga hér hvergi til.

Þess er því krafist að fullnægjandi, tæmandi og lögmætur rökstuðningur berist eigi síðar en fyrir lok dags.“

Bréf ráðuneytisins til FA

Nýjar fréttir

31. október 2024

Innskráning