Ráðuneytið gefur ekki efnisleg svör um pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar

06.11.2015

FjarmalaraduneytiFjármálaráðuneytið hefur sent Félagi atvinnurekenda svarbréf við ítrekuðum fyrirspurnum um pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, svokallaða Express-þjónustu. Í svari ráðuneytisins kemur þó ekki fram nein efnisleg afstaða til málsins.

FA hefur gagnrýnt Express-þjónustuna, sem felst í því að fólk getur pantað sér vörur án opinberra gjalda á netinu og ekkert er því síðan til fyrirstöðu að það fái einhvern annan, sem á leið um Keflavíkurflugvöll, til að sækja þær fyrir sig. Árið 1996 tók Friðrik Sophusson þáverandi fjármálaráðherra fyrir sambærilega þjónustu Fríhafnarinnar, eftir að Félag íslenskra stórkaupmanna, FA, hafði kvartað til ráðuneytisins. FA vildi fá að vita hvort afstaða ráðuneytisins hefði breyst.

Í svari ráðuneytisins, sem barst FA í dag, kemur engin efnisleg afstaða fram, heldur eingöngu að skoðun málsins sé ekki lokið. Minnt er á að lagaumhverfi Fríhafnarinnar hafi breyst frá árinu 1996. „Eins og áður segir hefur ráðuneytið málið enn til skoðunar og gerir sér vonir um að þeirri skoðun verði lokið fyrir árslok 2015,“ segir í bréfinu.

„Þetta skriffinnskusvar ráðuneytisins veldur óneitanlega vonbrigðum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Við vonumst til þess að fjármálaráðherra, eins og forveri hans, beiti sér fyrir því að ósanngjörn samkeppni ríkisbúðarinnar í Leifsstöð við verslunina í landinu verði takmörkuð. Embættismenn eiga ekki að þurfa að liggja yfir málunum mánuðum saman til að komast að niðurstöðu um slíkt.“

Fyrra bréf FA til fjármálaráðherra

Síðara bréf FA til fjármálaráðherra

Svarbréf fjármálaráðuneytisins

Nýjar fréttir

Innskráning