Ráðuneytið lætur lykilspurningum ósvarað – en vill heildarendurskoðun á áfengislögum

12.10.2021

Dómsmálaráðuneytið hefur svarað fyrirspurn Félags atvinnurekenda, sem upphaflega var beint til fjármálaráðuneytisins 9. ágúst, um lögmæti netverslunar með áfengi. Af svari ráðuneytisins má ráða að það telji innlenda netverslun með áfengi óheimila án lagabreytingar. Spurningum FA um önnur form netverslunar, til að mynda þegar netverslun er skráð í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðsins en afhendir vörur beint úr vöruhúsi á Íslandi, er ekki svarað í bréfi ráðuneytisins.

FA ítrekar beiðni um svör
FA beindi þremur spurningum til stjórnvalda:

  1. Er netverslun áfengisframleiðanda með staðfestu á Íslandi í samræmi við lög?
  2. Er netversun fyrirtækis með staðfestu í öðru EES-ríki, sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?
  3. Er netverslun fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (t.d. Bretlandi) sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?

Í bréfi dómsmálaráðuneytisins kemur fram að smásala sé nú eingöngu heimil Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem hafi einkaleyfi til slíkrar starfsemi. Þá er rifjað upp að frumvarp dómsmálaráðherra um heimild til reksturs innlendra netverslana með áfengi í smásölu til neytenda hafi verið lagt fyrir ríkisstjórn en ekki náð fram að ganga. „Það var mat dómsmálaráðherra að þörf væri á breytingum á áfengislögum til að heimila innlenda netverslun að ákveðnum skilyrðum uppfylltum,“ segir í bréfi ráðuneytisins.

Svör við spurningum 2 og 3 er ekki að finna í bréfi ráðuneytisins og segir það leiðbeiningaskyldu sína ekki ná til „lögskýringa í tengslum við öll þau lagalegu álitaefni sem kunna að rísa á grundvelli laga sem undir ráðuneytið heyrir.“

FA hefur sent ráðuneytinu svarbréf, þar sem ósk um svör við seinni spurningunum tveimur er ítrekuð og bent á mikilvægi fyrirsjáanleika og öryggis í viðskiptum. „Dæmi þess að stjórnvöld gefi út leiðbeiningar um gildi laga og hvernig borgararnir geti hagað sér innan ramma þeirra eru fjölmörg enda er slíkt í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti. Að láta stórar atvinnugreinar vaða í reyk og svælu í lagalegri óvissu án þess að vísa þeim leið er hins vegar dæmi um hið gagnstæða,“ segir í bréfi FA.

Mikilvægt að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum
Í bréfi ráðuneytisins er rakið að áfengislög hafi ekki tekið efnislegum breytingum í langan tíma og byggi að mestu leyti á lögum frá 1969. „Færa má rök fyrir því að lögin hafi ekki þróast í takt við þá samfélagslegu þróun sem orðið hefur á undanförnum árum og á það einnig við um breytt mynstur verslunar, þá sérstaklega hvað varðar netverslun, innlenda sem erlenda. Þá hefur orðið mikil gróska í innlendri framleiðslu sem vart þekktist við gildistöku laganna. Á undanförnum árum hafa komið upp ýmis álitaefni sem hafa bent til þess að mikilvægt sé að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum til að þau endurspegli breytta þróun á sviði verslunar og framleiðslu áfengis hér á landi,“ segir í erindi ráðuneytisins.

Undir þetta er tekið í svarbréfi FA, en félagið hefur ítrekað hvatt til heildarendurskoðunar á áfengislöggjöfinni. FA hefur lagt áherslu á að samhliða breyttu sölufyrirkomulagi, þar sem einkaaðilum er leyft að selja áfengi í smásölu, verði bannið við áfengisauglýsingum afnumið, enda er það orðið orðin tóm og nær engan veginn tilgangi sínum. Um leið yrðu settar reglur um hvernig áfengisauglýsingar yrðu úr garði gerðar. FA hefur ennfremur lagt áherslu á að samhliða þessum breytingum yrði ákvæðum laga um innheimtu áfengisgjalds breytt.

„FA og félagsmenn þess lýsa sig reiðubúin að taka þátt í slíkri heildarendurskoðun á lagarammanum um sölu, markaðssetningu og gjaldtöku af áfengi ásamt ráðuneytinu og öðrum hagsmunaaðilum. Félagið telur sig hafa þar mikilvægri þekkingu, sjónarmiðum og gögnum að miðla. Í ljósi hinnar óvissu stöðu á áfengismarkaðnum telur félagið brýnt að þessi vinna hefjist sem allra fyrst,“ segir í svari FA til dómsmálaráðuneytisins

Bréf ráðuneytisins til FA 8. október 2021
Svar FA til ráðuneytisins 12. október 2021

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning