Rætt um gullhúðun og fríverslun á fundi með utanríkisráðherra

04.09.2024

Framkvæmdastjóri FA og formenn millilandaviðskiptaráða félagsins áttu árlegan fund með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í gær. Rætt var um ýmis mál sem varða EES-samninginn og viðskipti við Indland og Taíland, en FA rekur Íslensk-evrópska verslunarráðið, Íslensk-indverska viðskiptaráðið og Íslensk-taílenska viðskiptaráðið.

Gullhúðun getur líka falist í íþyngjandi framkvæmd EES-reglna
ÍEV fjallar fyrst og fremst um EES-samninginn og aðra viðskiptasamninga við Evrópusambandið. Á fundinum var m.a. rætt um hvernig ríkisstjórnin myndi fylgja eftir gagnvart fagráðuneytum og undirstofnunum niðurstöðum starfshóps um aðgerðir gegn svokallaðri gullhúðun Evrópureglna. Með gullhúðun er átt við að bætt sé við EES-reglur séríslenskum reglum, sem eru íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki og skerða samkeppnisstöðu þeirra. Fulltrúar FA og ÍEV bentu á að gullhúðun gæti falist ekki eingöngu í reglunum sjálfum, heldur einnig framkvæmd þeirra ef hún væri með meira íþyngjandi hætti en í öðrum ríkjum EES.

Jafnframt var rætt um tollflokkunarmál, en fulltrúar FA og ÍEV lögðu á fundinum þunga áherslu á að það væri stórvarasamt fordæmi sem íslensk stjórnvöld gáfu þegar tollflokkun vöru, sem heyrir undir EES-samninginn, var breytt þvert á álit Evrópusambandsins og Alþjóðatollastofnunarinnar. Samtökin hafa bent á að slíkt geti valdið algjöru uppnámi í utanríkisviðskiptum Íslands.

Samstarf um kynningu fríverslunarsamnings við Indland
Á vettvangi Íslensk-indverska viðskiptaráðsins er margt að gerast, enda eru EFTA-ríkin nýbúin að undirrita fríverslunarsamning við Indland, fjölmennasta ríki heims og einn þeirra markaða sem hraðast vaxa. Utanríkisráðuneytið og ÍIV hyggjast eiga í samstarfi um að kynna tækifærin, sem í samningnum felast, fyrir íslenskum fyrirtækjum í aðdraganda gildistöku hans, sem gera má ráð fyrir að verði seint á næsta ári.

Þá upplýsti ráðherra um þá einkar jákvæðu þróun að verið væri að fjölga mjög starfsfólki í sendiráði Íslands í Nýju Delí, sem starfar við útgáfu vegabréfsáritana. Hægagangur við útgáfu vegabréfsáritana hefur verið flöskuháls í viðskiptum Íslands og Indlands og orðið til þess að færri indverskir ferðamenn en ella hafa sótt Ísland heim.

Fríverslunarviðræður við Taíland ganga vel
Viðræður um fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Taílands hafa gengið vel og vantar aðeins herslumuninn, að því er fram kom á fundinum. Nokkur óvissa er þó um framhaldið vegna stjórnmálaástandsins í Taílandi. EFTA-ríkin fylgjast náið með fríverslunarviðræðum Evrópusambandsins og Taílands, sem hafa einnig verið í gangi að undanförnu.

Í samstarfssamningi FA og utanríkisráðuneytisins er kveðið á um árlegan fund FA og viðskiptaráða félagsins með utanríkisráðherra.

Frá vinstri: Páll Rúnar M. Kristjánsson, formaður ÍEV, Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA, Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Holberg Másson, formaður ÍTV.

Nýjar fréttir

Innskráning