Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Fréttablaðinu 18. febrúar 2022.
Axel Sæland, umsvifamesti blómabóndi landsins, hefur stundum haldið því fram að innflutningur á blómum sé óþarfur; innlendir framleiðendur anni vel eftirspurn á markaðnum. Það er ekki rétt. Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bent á að í kringum stóru blómadagana í febrúar, Valentínusardag og konudag, þarf að flytja inn stóran hluta blómanna af því að innlendir framleiðendur anna hvergi nærri eftirspurn. Á innfluttu blómin leggjast engu að síður himinháir tollar; á Valentínusarrósirnar lagðist þannig á síðasta ári u.þ.b. 88% tollur að meðaltali. Með öðrum orðum tvöfalda tollar hér um bil innkaupsverðið og hafa áhrif á útsöluverðið eftir því.
Í Fréttablaðinu á miðvikudaginn sagði Axel að það væri reyndar rétt að íslenzkir blómabændur önnuðu ekki eftirspurn fyrir stóru blómadagana í febrúar, en þeir gerðu það „alla hina dagana“. Þetta er alrangt eins og sést vel á tölum Hagstofunnar um innflutning á rósum. Í febrúar í fyrra þurfti að flytja inn 2,7 tonn af rósum, um 32.000 stykki. Allt árið 2021 voru hins vegar flutt inn 7,9 tonn, væntanlega um 93.000 rósir. Það þýðir að fyrir „alla hina dagana“ þurfti að flytja inn yfir 60.000 rósir. Staðreyndin er sú að íslenzkir blómabændur anna alls ekki eftirspurn og innflutningur er nauðsynlegur til að mæta stækkandi markaði. Opinberar álögur á vörurnar verða að taka eitthvert mið af því.
Axel segir réttilega í blaðinu að tollar á blómum séu eingöngu til að vernda innlenda framleiðendur fyrir samkeppni. En hann segir líka að nú í febrúar, í kringum Valentínusardaginn, sé heimsmarkaðsverðið á blómum svo hátt að innfluttu blómin séu mun dýrari en þau íslenzku, jafnvel án tollanna. Til hvers þurfa Axel og aðrir blómabændur þá tollvernd á þessum tíma? Af hverju taka þeir ekki undir tillögur FA um að stjórnvöld gefi út tollfrjálsar innflutningsheimildir sem blómaverzlunin gæti nýtt til að anna eftirspurn, án þess að innkaupsverð blóma tvöfaldist?