Raunhæft að semja við ESB um stuðning við krónuna

07.09.2021
Jón Steinar og Ólafur ræða saman í Kaffikróknum.

Upptaka evru og aðild að Evrópusambandinu er eitt af mikilvægustu málunum fyrir atvinnulífið, að mati Jóns Steindórs Valdimarssonar alþingismanns og frambjóðanda Viðreisnar. Hann var gestur í Kaffikrók FA í morgun og ræddi við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra um hagsmunamál fyrirtækjanna. Horfa má á samtalið í spilaranum hér að neðan.

Ólafur fór yfir að samkvæmt könnunum meðal félagsmanna FA skiptast þeir í nokkurn veginn jafnstóra 40% hópa í stuðningi sínum við krónu eða evru og afstöðu til þess hvort halda hefði átt áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið eður ei. Tæpur þriðjungur, 29%, telur að Ísland eigi að ganga í ESB en 45% eru því andvíg. Er þetta mikilvægasta málið fyrir fyrirtækin?

„Þetta er eitt af mikilvægustu málunum af því að þetta leggur að mínu mati og okkar í Viðreisn svo mikinn grunn að öllu öðru. Í fyrirtækjarekstri hafa menn nóg að gera með samkeppnina og alls konar markaðsaðstæður en til viðbótar kemur þá þessi gengisáhætta sem hefur verið viðvarandi og eykur óvissu í öllum rekstri,“ sagði Jón Steindór. „Það er mjög erfitt að sjá framtíðina fyrir sér og gera framtíðarplön ef þú veist ekki ef þú ert í útflutningi hvers virði hann er og ef þú ert í innflutningi hvað þú þarft að borga fyrir innflutta vöru. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Það skiptir líka miklu máli að vera með alþjóðlegan gjaldmiðil. Í kringum alls konar fjárfestingar er erfitt fyrir menn að skilja krónuna og krónuumhverfið með alls konar vísitölum og sérákvæðum. Erlendis skilja menn ekki þegar inn- eða útflytjendur eru að biðja um gott veður af því að gengið hafi breyst.“

Jón Steindór bætti við að það væri fáránlegt að fólk í fyrirtækjarekstri þyrfti um leið að vera sérfræðingar í gjaldeyrismálum, áhættu og sveiflum gjaldmiðla og hvernig ætti að tryggja sig gagnvart þeim sveiflum.

Tenging krónu við evru millibilslausn
Viðreisn hefur sett fram tillögu um að Ísland geri tvíhliða samning við ESB um samstarf í gjaldeyrismálum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, fyrirkomulag sem væri hliðstætt gjaldeyrisfyrirkomulagi Dana og sameiginlega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu. Ólafur spurði Jón Steindór hvort þetta ætti að vera einhvers konar millibilslausn og hvort hann væri trúaður á að hún væri raunhæf, en margoft hefur komið fram, m.a. af hálfu Seðlabankans, að Ísland eigi fyrst og fremst þá kosti í gjaldmiðilsmálum að halda sig við krónuna eða taka upp evru með aðild að ESB.

„Þetta er millibilslausn. Við höfum aðeins lagst í rannsóknarvinnu í kringum þetta og trúum því að það sé hægt – að minnsta kosti ekki ómögulegt – að gera slíkan samning við Seðlabanka Evrópu, um að við getum fasttengt krónuna við evru með svipuðu fyrirkomulagi og Danir eru með. Það ætti að vera hægt að ná þessu á til þess að gera skömmum tíma, auðvitað tekur það einhvern tíma, ég geri mér fullkomlega grein fyrir því. En við vitum líka að aðild að Evrópusambandinu tekur lengri tíma. Það er framtíðarlausnin og felst auðvitað miklu meira í því en gjaldmiðillinn. En við gætum náð í þessa kosti gjaldmiðilsins fyrr sem skiptir gríðarlega miklu máli,“ sagði Jón Steindór.

Hann sagðist telja þessa leið raunhæfa. „Öðrum þræði er þetta auðvitað pólitísk ákvörðun og ef pólitíkin innan Evrópusambandsins er þessu andsnúin verður ekkert af því. Þannig er það bara. Seðlabanki Evrópu fer með þetta vald en engu að síður stjórnast þetta af því. Ef það er pólitískur vilji, þá er þetta hægt. Og af hverju ætti að vera pólitískur vilji til að gera þetta? Ég held að það sé pólitískur vilji af því að það hefur ýmislegt gengið á í Evrópusambandinu. Bretarnir fóru út. Ég held að ESB sé umhugað um að sýna einhver jákvæð skref í átt að meiri samvinnu og meiri tengingu og áhrifum Evrópusambandsins og að það nái víðar og þar með til Íslands. Svo er það auðvitað þannig að við erum óvenjuvel í stakk búin núna, með svona mikinn gjaldeyrisvarasjóð, til að taka þátt í svona samstarfi. Við getum þá í sjálfu sér haft okkar gjaldeyrisvarasjóð sem nokkurs konar tryggingu gagnvart Seðlabanka Evrópu til að verja gengið.“

Ólafur og Jón Steindór ræddu einnig skattamál fyrirtækja, samkeppnismál, landbúnaðar- og tollamál, nýsköpun og fleira. Hægt er að horfa með því að smella á spilarann að ofan.

Nýjar fréttir

Innskráning