Reglusetningargleðin

30.12.2016

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í áramótablaði Viðskiptablaðsins, 30. desember 2016.

ReglubyrðiÞeir sem reka fyrirtæki þekkja vel hversu tímafrekt og kostnaðarsamt getur verið að uppfylla margvíslegar kvaðir sem hið opinbera leggur á reksturinn. Vöxturinn í reglugerðafrumskóginum virðist stundum nánast hömlulaus; stöðugt bætast við íþyngjandi kröfur sem fyrirtækjum ber að uppfylla.

Ríkisstjórnin sem sat á síðasta kjörtímabili setti sér fallega stefnu um einföldun regluverks atvinnulífsins. Markmið hennar átti að vera „að minnka skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri.“ Sérstakt markmið var sömuleiðis að „engar nýjar íþyngjandi reglur verði innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið falli brott jafnveigamiklar kvaðir. Þannig munu heildaráhrif regluverksins þróast í rétta átt.“

Falleg stefna komst ekki í framkvæmd
Skemmst er frá því að segja að framkvæmd þessarar stefnu klúðraðist herfilega. Samkvæmt úttekt sem ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur gerði fyrir forsætisráðuneytið síðastliðið haust náðist í raun enginn árangur. Alls urðu að lögum 35 frumvörp sem snertu regluverk atvinnulífsins. Sex þeirra voru til einföldunar regluverks, tólf fólu bæði í sér einföldun og íþyngjandi reglur og afgangurinn, eða sautján frumvörp, fólu eingöngu í sér íþyngjandi regluverk. Þannig þróuðust heildaráhrif regluverksins í ranga átt, þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar.

Hvers vegna gerist þetta, þrátt fyrir að pólitísk stefna hafi verið mörkuð? Fyrir því eru að minnsta kosti þrjár ástæður.

  • Í fyrsta lagi virðast embættismenn ráðuneytanna oft ekki hafa tekið eftir því að mörkuð hafi verið stefna um einföldun regluverks. Þegar þeir setjast við samningu frumvarpa finnst þeim sjálfsagt og eðlilegt að bæta íþyngjandi kvöðum á atvinnulífið.
  • Í öðru lagi hafa ráðuneytin nánast algjörlega vanrækt það hlutverk sitt að meta áhrif frumvarpa á reglubyrði atvinnulífsins. Í áðurnefndri úttekt kemur fram að einhvern vísi að slíku mati mátti finna í tveimur frumvörpum af 35.
  • Í þriðja lagi kemur mikið af nýju regluverki atvinnulífsins frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Við samningu frumvarpa til að innleiða EES-reglurnar nýta embættismennirnir iðulega ekki það svigrúm sem Ísland hefur til að létta reglubyrðina, heldur bæta þvert á móti við séríslenzkum, íþyngjandi reglum. Niðurstaða ráðgjafarnefndarinnar var að það hefði verið gert í þriðjungi tilvika þegar ný EES-löggjöf var innleidd.

Meta þarf áhrifin og nota svigrúmið
Þegar þetta er skrifað er ekki komin ný ríkisstjórn, en við skulum gefa okkur að þegar hún verður sett á laggirnar setji hún sér líka stefnu um einföldun regluverks atvinnulífsins, enda virðist þverpólitísk samstaða um slíka stefnu. Framkvæmdina þarf hins vegar greinilega að endurskoða.

  • Gera þarf þá kröfu til ráðuneytanna að þau birti með lagafrumvörpum mat á kostnaði og ávinningi fyrir atvinnulífið, þegar það á við.
  • Setja ætti skýra reglu um að engar nýjar íþyngjandi kvaðir verði lagðar á atvinnulífið nema í staðinn falli brott jafnveigamiklar kvaðir.
  • Gera á þá kröfu til ráðuneytanna að þau tilgreini nákvæmlega í greinargerð með frumvörpum til innleiðingar EES-reglna
  1. hvaða ákvæði eru til innleiðingar á Evrópureglunum
  2. hvaða ákvæði eru umfram það sem nauðsynlegt er vegna innleiðingar Evrópureglna og hver sé rökstuðningurinn fyrir að ganga lengra en þær kveða á um
  3. hvaða svigrúm er gefið í viðkomandi tilskipun eða reglugerð til minna íþyngjandi innleiðingar

Alþingismenn og ráðherrar ættu að strengja það áramótaheit að hafa ekki aðeins góða stefnu varðandi regluverk atvinnulífsins, heldur að fylgja henni almennilega eftir og sjá til þess að embættismenn ríkisins taki pólitískri leiðsögn. Laun þeirra fyrir grisjun reglugerðafrumskógarins verða vonandi ríkuleg, í formi meiri framleiðni og verðmætasköpunar í atvinnulífinu.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning