Réttar tölur og gott samtal um gosdrykki

25.06.2020

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA Í Morgunblaðinu 25. júní 2020. 

Hlutfall vatnsdrykkja í gosneyslu landans hefur snarhækkað á fáum árum en sala á sykruðum drykkjum minnkar.

„Landinn eykur neyslu gosdrykkja“ var fimm dálka fyrirsögn á síðu 2 í Morgunblaðinu í gær. Fullyrðingin var byggð á kynningu Landlæknisembættisins á svokölluðum lýðheilsuvísum fyrir árið 2020 sem fram fór á Selfossi í fyrradag. Þar voru birtar niðurstöður könnunar embættisins, sem sýna að fullorðnum sem segjast drekka gosdrykki daglega fjölgar lítillega á milli áranna 2018 til 2019, eða úr um 20% í 21,3%. Hlutfall nemenda í 5.-7. bekk sem segjast drekka gosdrykki daglega er svipað, eða 19,3%.

Í kynningu Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur, sviðsstjóra lýðheilsusviðs landlæknisembættisins, kom fram sú fullyrðing að Íslendingar ættu Norðurlandamet í neyzlu gosdrykkja. Hún fullyrti jafnframt að mikilvægasta aðgerðin til að draga úr offitu væri að auka álögur á gosdrykki, en Landlæknisembættið hefur ítrekað lagt til að sérstakir gosskattar verði lagðir á og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gert þær tillögur að sínum.

Við þetta er ýmislegt að athuga.

Í fyrsta lagi segja tölur um tíðni gosdrykkjaneyzlu okkur ekkert um magnið. Það er því ákaflega hæpið að álykta út frá niðurstöðum um hversu margir segjast drekka gosdrykki daglega að gosneyzla hafi aukizt. Sérfræðingar Landlæknisembættisins geta illa verið þekktir fyrir slíka meðferð á tölfræðilegum gögnum.

Neyzlan breytist hratt – án skatta
Í öðru lagi birtir Landlæknisembættið ekki tölur um drykkju á sykruðum gosdrykkjum sérstaklega – sem eru væntanlega offituvaldurinn sem embættið vill ráðast gegn – heldur eru birtar niðurstöður um heildarneyzlu gosdrykkja. Frétt Morgunblaðsins fylgir mynd af sykruðum gosdrykkjum í búðarhillu. Ef hins vegar væru bornar saman myndir úr gosdrykkjahillum verzlana fyrir fimm árum og nú, myndi vekja athygli hvað hlutur vatnsdrykkja hefur vaxið á kostnað sykraða gossins.

Staðreyndin er sú að á undanförnum árum hefur gosdrykkjaneyzla breytzt hratt. Hlutfall sykraðra gosdrykkja hefur lækkað stórlega síðustu fjögur ár, eða úr 48% niður í 41%. Á sama tíma hefur hlutur kolsýrðra vatnsdrykkja vaxið hröðum skrefum. Samkvæmt gögnum frá Nielsen/Markaðsgreiningu, sem byggjast á beinhörðum sölutölum frá 95% matvöruverzlana á Íslandi, jafnt stórmörkuðum sem benzínstöðvum, jókst sala gosdrykkja um 5% á síðasta ári. En þar með er ekki öll sagan sögð. Sala á sykruðum drykkjum minnkaði um 5% en sala á sykurlausum drykkjum jókst um 14% og öll aukningin er því til komin vegna heilsusamlegra vals neytenda. Vatnsdrykkir eru rúmlega 30% af sölunni, en hlutfall þeirra árið 2016 var 25%.

Þannig dregst hlutfallsleg neyzla á sykruðum gosdrykkjum hratt saman og heildarsala þeirra minnkar einnig. Þetta gerist án skatta eða annarrar opinberrar neyzlustýringar, annars vegna þess að gosdrykkjaframleiðendur hafa sett sér markmið um að minnka sykur í framleiðslu sinni og hins vegar vegna þess að neytendur kalla í sívaxandi mæli eftir ósykruðum drykkjum. Það vekur óneitanlega spurningar af hverju Landlæknisembættið hagar könnunum sínum ekki þannig að það geti birt sundurgreind svör um þróunina í neyzlu sykraðra gosdrykkja annars vegar og ósykraðra og vatnsdrykkja hins vegar. Það vekur líka furðu að í kynningu embættisins á lýðheilsuvísunum skuli dregin upp sem neikvæðust mynd hvað varðar gosdrykkjaneyzlu, en ekki fjallað einu orði um þessa hröðu þróun, sem þó eru til áreiðanleg gögn um. Fyrst það er að gerast sem Landlæknir vill að gerist – að neyzla á sykruðu gosi minnki – af hverju lætur embættið eins og það viti það ekki?

Lítill áhugi á réttum upplýsingum
Í þriðja lagi hefur Landlæknisembættið ítrekað áður fullyrt að Íslendingar eigi Norðurlandamet í neyzlu sykraðra gosdrykkja. Aldrei hafa fengizt skýr svör við því á hverju sú fullyrðing byggist. Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bent heilbrigðisráðuneytinu og Landlæknisembættinu á að hún virðist byggð á gögnum Hagstofunnar um gosdrykkjaneyzlu, sem eru ekki sundurliðuð í sykraða og ósæta drykki, þ.m.t. vatnsdrykki, og ályktað sé út frá þeim um neyzlu á sykruðu gosi. Þessi gögn eru ekki sambærileg við gögn um neyzlu sykraðs goss, sem önnur norræn ríki nota, auk þess sem þau eru orðin hátt í tíu ára gömul. Margt hefur breytzt síðan, eins og ofangreindar tölur sýna.

Félag atvinnurekenda hefur í þrígang sent heilbrigðisráðuneytinu formleg erindi, þar sem bent er á að tillögur Landlæknisembættisins um gosskatta séu byggðar á gömlum og úreltum gögnum. Þannig fullyrðir embættið til dæmis að rúmlega þriðjungur af neyzlu Íslendinga á viðbættum sykri komi úr gosdrykkjum. Það er röng tala byggð á vafasamri túlkun á gömlum gögnum en hefur ekki verið leiðrétt af hálfu heilbrigðisráðuneytisins eða Landlæknis. Áðurnefndar sölutölur úr verzlunum benda til að rétt tala sé vel innan við 20%. Í þessum bréfum hefur verið bent á að nauðsynlegt sé að ákvarðanir um íþyngjandi skattlagningu séu byggðar á réttum gögnum og boðið fram samtal og samstarf um að afla réttra gagna um þennan markað.

Bréfum FA til ráðuneytisins hefur hins vegar ekki verið svarað og Landlæknisembættið hefur ekki sinnt ítrekuðum beiðnum fyrirtækja í gosdrykkjageiranum um samtal um réttar tölur í þessu efni.

Á undanförnum mánuðum höfum við séð vel hversu miklu máli skiptir að takast á við aðsteðjandi vanda með samstilltum aðgerðum byggðum á góðum gögnum og stöðugu samtali yfirvalda og atvinnulífs. Landlæknisembættið og heilbrigðisráðuneytið hafa farið þar fremst í flokki og sýnt aðdáunarverða fagmennsku. Það væri óskandi að sömu stofnanir viðhefðu jafngóða starfshætti í þessu máli.

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning