Réttaróvissu vegna CBD-vara verði eytt

02.02.2021
Vörurnar sem um ræðir. Mynd: Sigtryggur Ari

Lögreglan hefur skilað félagsmanni FA, CBD ehf., sem rekur vefverslunina atomos.is, snyrtivörum sem innihalda CBD-olíu. Lögreglan lagði hald á vörurnar við innflutning í mars í fyrra og skilaði þeim nú tíu mánuðum síðar, eftir að fjallað var um málið í Fréttablaðinu. FA hefur skrifað Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra erindi og farið fram á að ráðherrann beiti sér fyrir því að réttaróvissu vegna sambærilegra vara verði eytt.

Vörusending CBD var haldlögð 13. mars í fyrra af Tollinum og var málið í framhaldinu sent til lögreglu. Um er að ræða snyrtivörur, húðolíur sem innihalda efnið CBD, sem unnið er úr kannabisplöntunni. Fyrirtækinu var í apríl tilkynnt af lögreglu að vörurnar hefðu verið sendar í efnagreiningu. Samkvæmt því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag fór sú efnagreining ekki fram fyrr en í byrjun desember og enn liðu tveir mánuðir áður en fyrirtækið fékk vörurnar afhentar í lok síðustu viku.

Að mati Umhverfisstofnunar þurftu merkingar varanna lagfæringar við, en hún gerði að öðru leyti engar athugasemdir við innflutning þeirra eða sölu. Í afstöðu stofnunarinnar frá í janúar 2020 kemur fram að CBD sé náttúrulegt efni, sé ekki bannað efni í snyrtivörum samkvæmt Evrópureglum, ekki talið upp í viðaukum alþjóðasamningsins um ávana- og fíkniefni og sé leyfilegt sem innihaldsefni í snyrtivörum.

Hægt að vinna CBD úr iðnaðarhampi
Félag atvinnurekenda sendi Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra erindi 20. janúar sl., þar sem þessi afstaða Umhverfisstofnunar var rakin og bent á að félagsmaður FA hefði engu að síður ekki fengið vörur sínar afhentar, ekki getað flutt inn fleiri slíkar vörur og hefði stöðu sakbornings í lögreglurannsókn. Í erindinu er vitnað til þingsályktunartillögu þingmanna úr nokkrum flokkum, þar sem lagt er til að ráðherra beiti sér fyrir því að skýra réttarstöðu vara sem innihalda CBD. Þar er m.a. bent á að ljósi þess að CBD er ekki vímugjafi standi engin rök til þess að það skuli flokkað sem ávana- og fíkniefni. Vörur og lyf sem innihalda CBD geti haft talsvert notagildi fyrir marga einstaklinga og þegar sé hér á landi nokkur fjöldi sem notar efnið, þrátt fyrir að lagaleg staða þess sé óskýr.

Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar benda ennfremur á að mörg nágrannaríki Íslands hafi farið þá leið að heimila vinnslu CBD úr iðnaðarhampi og leyfa lausasölu á afurðunum þegar styrkleiki virka efnisins THC er innan við skilgreind mörk. Þegar að að lagasetningu um kannabisvörur kemur hafi Evrópusambandið þegar aðgreint THC frá öðrum vörum sem vinna má úr hampjurtinni. Þannig sé ræktun og vinnsla úr hampjurtinni lögleg í mörgum Evrópusambandsríkjum þegar um sé að ræða plöntur sem innihalda THC-magn undir skilgreindum mörkum.

Réttaróvissa skaðar hagsmuni fyrirtækja
„Það er mat FA að töluverð réttaróvissa sé til staðar sem endurspeglist í vandræðum félagsmannsins og þá réttarstöðu verði að skýra sem allra fyrst,“ segir í erindi FA til heilbrigðisráðherra. Framangreind þingsályktunartillaga hefur ekki hlotið afgreiðslu á þingi en FA telur afar brýnt að ráðuneytið grípi til aðgerða, hvað sem samþykkt hennar líður, þar sem sú réttaróvissa sem núverandi ástand skapar skaðar hagsmuni fyrirtækja. Rétt er að benda á að heilbrigðisráðherra hefur nú þegar tekið skref í átt að lögleiðingu CBD með breytingu á reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni sem gerir innflutning, meðferð og vörslu fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulega.

Erindi FA til heilbrigðisráðherra

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning