Ríkið dæmt til að greiða innflytjendum viðbótardráttarvexti vegna útboðsgjalds

31.05.2017

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til að greiða þremur innflutningsfyrirtækjum viðbótardráttarvexti vegna oftekins útboðsgjalds vegna tollkvóta á búvörum.

Á árunum 2009 til 2016 fluttu Innnes ehf., Hagar verslanir ehf. og Sælkeradreifingin ehf. inn tilteknar landbúnaðarvörur á grundvelli tollkvóta, annars vegar svokallaðra WTO-tollkvóta og hins vegar ESB-tollkvóta. Þann 16. desember 2013 stefndu fyrirtækin íslenska ríkinu og kröfðust endurgreiðslu gjaldanna sem þau höfðu greitt vegna tollkvótanna. Með dómum Hæstaréttar Íslands 21. janúar 2016 var gjaldtaka ráðherra vegna tollkvótanna dæmd ólögmæt og íslenska ríkinu gert að endurgreiða gjöldin. Í kjölfar dómana endurgreiddi íslenska ríkið hin ofteknu gjöld og námu endurgreiðslurnar u.þ.b. 400 milljónum króna.

Í dómunum sem féllu í dag var deilt um útreikning dráttarvaxta vegna endurgreiðslu íslenska ríkisins á ofangreindum gjöldum. Stefnendur héldu því fram að íslenska ríkið hefði vangreitt dráttarvexti við endurgreiðslu gjaldanna. Aðalágreiningur málanna laut að því við hvaða tímamark skyldi miða upphafstíma dráttarvaxta. Stefnendur töldu að miða skyldi upphafstímann við 16. desember 2013, þ.e. daginn sem fyrirtækin höfðuðu upphaflega málið vegna endurgreiðslu gjaldanna. Frá því tímamarki hefði íslenska ríkinu mátt vera ljóst að innheimta gjaldanna væri ólögmæt. Íslenska ríkið taldi hins vegar að miða skyldi útreikning dráttarvaxtanna við mun síðara tímamark. Röksemdafærsla íslenska ríkisins byggðist fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að ríkið hefði fyrst verið krafið um endurgreiðslu viðkomandi fjárhæða með kröfubréfum dagsettum þann 27. janúar 2016.

40 milljónir í endurgreiðslur
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á sjónarmið innflutningsfyrirtækjanna og tók til greina kröfur þeirra. Niðurstaða héraðsdóms var sú að stefnendur ættu rétt á dráttarvöxtum frá 16. desember 2013 til greiðsludags. Þannig var íslenska ríkið dæmt skylt til að greiða Högum verslunum ehf. kr. 23.690.845, Innnesi kr. 10.221.026 og Sælkeradreifingu kr. 6.765.636. Að auki var íslenska ríkinu gert að greiða málskostnað fyrirtækjanna þriggja vegna rekstur málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í einfölduðu máli má segja að ríkið hafi gert þá kröfu að greiðendur ólögmætra gjalda gerðu grein fyrir ólögmæti þeirra í hvert einasta skipti sem þau voru greidd í stað þess að nóg væri að gera það í eitt skipti. Þetta gat ekki staðist að mati fyrirtækjanna enda töldu þau að það væri ólögmætt og órökrétt að ætlast til þess að þau gerðu ríkinu ítrekað og endurtekið grein fyrir því að þau teldu þessa gjaldtöku ólöglega. Þá innheimti íslenska ríkið fjármagnstekjuskatt með afturvirkum hætti sem fallist var á með fyrirtækjunum að stæðist ekki.

Hefur fordæmisgildi
„Þetta er vissulega ánægjulegt og í fullu samræmi við það sem lagt var upp með,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður fyrirtækjanna. „Ríkið hélt uppi ágætisvörnum í málinu en í fullri sanngirni þá er þetta mjög rökrétt og eðlileg niðurstaða sem ég vona að ríkið muni una án frekari málalenginga. Þegar ríkið hefur oftekið skatta af fólki þá á það möglunarlaust að standa skil á endurgreiðslu sinni og það að fullu.”

Um fordæmisgildi málsins segir Páll: „Þessi dómur mun á efa gagnast mörgum skattgreiðendum sem eiga rétt á endurgreiðslu skatta og gjalda frá íslenska ríkinu og tryggja að þeir fái fullar efndir, eðlilega vexti og greiði ekki skatta afturvirkt, eins og virðist hafa verið.”

Dómur í máli Sælkeradreifingar gegn ríkinu

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning