Ríkið viðurkennir að hafa brotið lög þegar fersk egg voru gerð upptæk

05.11.2018

Íslenska ríkið viðurkennir bótaskyldu sína í máli, þar sem tollverðir gerðu upptæk fersk egg, sem flutt voru inn til landsins í janúar í fyrra. Ríkið og innflutningsfyrirtækið sem stefndi því eru sammála um að fella málið niður og greiðir ríkið allan málskostnað. Þetta kemur fram í réttarsátt, sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Dómur féll í Hæstarétti í síðasta mánuði í sambærilegu máli sem varðaði innflutning á fersku kjöti. Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, þess efnis að bann við innflutningi á fersku kjöti, ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk, bryti í bága við EES-samninginn. Í hinum staðfesta dómi var það orðað svo að um væri að ræða „vísvitandi og alvarlegt brot á samningsskuldbindingum íslenskra stjórnvalda“ sem valdið hefði hlutaðeigandi innflutningsfyrirtæki tjóni.

Áður hafði EFTA-dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að innflutningsbannið bryti í bága við EES-samninginn.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það sé fagnaðarefni að ríkið viðurkenni bótaskyldu sína, á grundvelli þess að innflutningsbannið sé ólögmætt. „Það er auðvitað ekki nóg; það verður að breyta íslenskum lögum til að tryggja réttaröryggi innflutningsfyrirtækja og til að forða ríkinu frá fleiri skaðabótakröfum. Við hvetjum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til að hraða þeirri vinnu,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

Innskráning