Ríkinu stefnt á ný vegna útboðsgjalds

24.01.2017

IMG_0763Nokkur innflutningsfyrirtæki hafa stefnt eða ákveðið að stefna ríkinu og krafist endurgreiðslu útboðsgjalds sem innheimt hefur verið vegna úthlutunar tollkvóta fyrir búvörur. Fyrstu málin voru þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir hönd Innness og Sælkeradreifingar. Samanlagt nema kröfur fyrirtækjanna hundruðum milljóna króna.

Tollkvótar eru heimildir til innflutnings á takmörkuðu magni af landbúnaðarvörum á engum tollum eða lægri en gilda almennt samkvæmt tollskrá. Ríkið hefur haft þann háttinn á að bjóða upp heimildirnar og úthluta hæstbjóðendum. Útboðsgjaldið, sem innflutningsfyrirtækin hafa þannig greitt fyrir tollkvótann, hefur farið stöðugt hækkandi undanfarin ár vegna vaxandi eftirspurnar. Um leið fer ávinningur neytenda af tollfrelsinu sífellt minnkandi, þar sem útboðsgjaldið hækkar verð vörunnar. Í síðasta útboði tollkvóta varð óvenjumikil hækkun á útboðsgjaldinu, sem rekja má annars vegar til nýs útboðsfyrirkomulags og hins vegar ákvæða í búvörusamningum ríkisins og Bændasamtakanna um hækkun almennra tolla á ostum.

Fyrir réttu ári dæmdi Hæstiréttur ríkið til að endurgreiða þremur innflutningsfyrirtækjum oftekið útboðsgjald. Í dómum Hæstaréttar var því slegið föstu að útboðsgjaldið væri skattur og Alþingi mætti samkvæmt stjórnarskránni ekki framselja landbúnaðarráðherra val um það hvort skattur væri lagður á eða ekki. Alls má ætla að endurgreiðslur ríkissjóðs vegna þessarar niðurstöðu Hæstaréttar hafi numið hátt í tveimur milljörðum króna.

Skattlagningin áfram valkvæð
Eftir að dómar í sömu málum höfðu fallið í Héraðsdómi í mars 2015 breytti Alþingi ákvæðum búvörulaga um úthlutun tollkvóta og felldi út þann möguleika ráðherra að úthluta tollkvóta með hlutkesti. Félag atvinnurekenda telur að búvörulögin brjóti áfram í bága við stjórnarskrá, enda hefur ráðherra áfram það val samkvæmt lögunum að bjóða upp tollkvótana og innheimta útboðsgjald eða úthluta kvótunum endurgjaldslaust. Við útboðsgjaldið bætist í sumum tilfellum magntollur sem hækkar verð til neytenda enn frekar. FA telur magntollinn einnig vera í andstöðu við stjórnarskrá þar sem hann er háður ákvörðun ráðherra um viðmiðunardagsetningu á tilteknu gengi og er þar af leiðandi ekki fastákveðinn í lögum. 

„Ákvæði stjórnarskrár standa í vegi þess ríkið leggi á valkvæða skatta. Það er ekki eðlilegt að einstaka ráðherrar geti valið hvort og á hverja þeir leggja skatta. Fyrir um ári staðfesti Hæstiréttur að þessi gjaldtaka væri skattur, hann væri valkvæður og gjaldtakan því ólögmæt. Þá voru þessir valkostir ráðherra þrír. Í dag eru þeir tveir. Annars vegar að leggja á skatt og hins vegar að opna á innflutning á þessu magni án gjalda samkvæmt sérstakri heimild. Stjórnarskrá bannar valkvæða skatta, alveg sama hvað þessir valkostir eru margir,” segir Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, sem fer með málið fyrir hönd fyrirtækjanna.

Prinsippmál og neytendamál

„Þetta er í fyrsta lagi prinsippmál sem varðar skattlagningarheimildir stjórnvalda samkvæmt stjórnarskránni,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Í öðru lagi er þetta mikilvægt neytendamál – á þessu ári má ætla að um 400 milljónir króna renni úr vösum neytenda og til ríkisins vegna uppboðanna á tollkvótunum.“

Í stefnu fyrirtækjanna er farið fram á endurgreiðslu útboðsgjalds sem innt var af hendi seinni hluta árs 2015 og á árinu 2016. Landbúnaðarráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, og fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannessyni, er stefnt fyrir hönd ríkisins.

Ólafur segist þó binda vonir við ákvæði í stjórnarsáttmálanum og ummæli ráðherra um að ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir verðlækkun á innfluttum mat með því að tollkvóti verði ekki lengur seldur á uppsprengdu verði. „Ríkinu er stefnt vegna útboðsgjalds sem var innheimt með ólögmætum hætti á síðustu misserum, en við sjáum vonandi fram á breytta tíma í þessum efnum.“

Félag atvinnurekenda fékk tvo hagfræðinga til að vinna skýrslu um aðrar aðferðir en uppboð til að úthluta tollkvótum og segist Ólafur gera ráð fyrir að ný ríkisstjórn hafi áhuga á að kynna sér þær upplýsingar og hugmyndir sem þar er að finna.

Nýjar fréttir

Innskráning