Ríkisábyrgð til Icelandair óþörf og skaðleg samkeppni

15.12.2021

Félag atvinnurekenda leggur til í umsögn um fjárlagafrumvarp næsta árs að heimild til að framlengja ábyrgð ríkisins á lánum Icelandair verði felld niður.

Í frumvarpinu er lagt til að Alþingi heimili stjórnvöldum að veita áfram ríkisábyrgð á lánum Icelandair. Heildarskuldbinding ríkissjóðs vegna þessa getur numið allt að 108 milljónum Bandaríkjadala eða sem jafngildir 90% af 120 milljóna Bandaríkjadala lánalínum til félagsins. Það þýðir að skuldbinding ríkissjóðs getur orðið rúmlega 14 milljarðar króna á núverandi gengi. „Flugrekstur er í eðli sínu áhætturekstur og felst að sjálfsögðu í veitingu ábyrgðarinnar áhætta fyrir skattgreiðendur,“ segir í umsögn FA.

FA taldi á sínum tíma að ströng samkeppnisleg skilyrði ættu að fylgja veitingu þessarar ríkisábyrgðar, en sú varð ekki niðurstaðan. „Að mati félagsins er þessi ábyrgð skattgreiðenda á láni til félagsins nú bæði óþörf og skaðleg. Hún er óþörf í fyrsta lagi vegna þess að Icelandair er byrjað að rétta úr kútnum og í öðru lagi vegna þess að til er orðið annað íslenzkt flugfélag sem heldur uppi flugsamgöngum við nágrannalönd. Þá er hún einnig skaðleg sökum þess að til er orðin á ný innlend samkeppni í flugi til og frá landinu – sem er afar mikilvæg fyrir neytendur og atvinnulíf –  því að ríkisábyrgðin veitir Icelandair óeðlilegt samkeppnisforskot á keppinaut sinn, Play Air, í formi lægri fjármagnskostnaðar,“ segir í umsögn FA, sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri undirritar.

FA leggur til að heimildin verði afturkölluð og liður 7.22 í heimildum ráðherra í fjárlagafrumvarpi falli því út.

Umsögn FA um fjárlagafrumvarpið

 

Nýjar fréttir

Innskráning