Ríkiskaup hafa ákveðið að höfða mál til ógildingar úrskurðar kærunefndar útboðsmála fyrir dómstólum. Þó hefur núverandi rammasamningi verið sagt upp og munu Ríkiskaup fara aftur í útboð um flugsæti til og frá Íslandi. Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Iceland Express, segir að ranglega hafi verið stofnað til þessa samnings og að nauðsynlegt sé að fara aftur í útboð. Hann heldur því ennfremur fram að sú ákvörðun að áfrýja dómnum sé einungis gerð til að dreifa athyglinni frá kjarna málsins. Forstjóri Ríkiskaupa, Halldór Ó. Sigurðsson, viðurkennir galla á rammasamningi sem gerður var og að ákveðin atriði þurfi að laga. Hann segir að útboðið hafi ekki skilað tilætluðum árangri og því hafi verið ákveðið að segja upp rammasamningi og fara í annað útboð. Skarphéðinn, forstjóri Iceland Express, segir þá ákvörðun vera staðfestingu á því að illa hafi verið staðið að útboðinu og að félagið hafi réttmæta sýn á stöðu málsins.