Ríkisstyrkir til sumarnáms skaða samkeppni

24.06.2020
Skjáskot af vef Endurmenntunar Háskóla Íslands. Námskeiðin sem hér sjást eru öll í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkafyrirtækja og öll niðurgreidd af menntamálaráðuneytinu. Verðið er 3.000 krónur, en það treystir ekkert einkarekið fræðslufyrirtæki sér til að keppa við. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Félag atvinnurekenda hefur sent Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra erindi vegna útfærslu á stuðningi ráðuneytisins við sumarnám, en 500 milljónir króna hafa verið veittar til sumarnáms á háskólastigi. Skoðun FA leiðir í ljós að verulegur hluti þeirrar fjárhæðar rennur til endur- og símenntunarstofnana háskólanna og að námskeið, sem eru utan verksviðs háskólanna eins og það er skilgreint í lögum, eru niðurgreidd um tugi þúsunda króna. Viðkomandi starfsemi er í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkarekinna fræðslufyrirtækja. Nefna má sem dæmi námskeið sem alls ekki eru ætluð háskólanemum, háskólamenntuðum eða atvinnuleitendum sérstaklega, til dæmis tölvunámskeið, námskeið í samskiptaleikni, framkomu og verkefnastjórnun.

Hver getur keppt við 3.000 króna námskeiðsgjald?
„Endurmenntunardeildir háskólanna auglýsa nú námskeið á 3.000 krónur, sem alla jafna kosta tugi þúsunda. Í kynningum á þeim segir beinum orðum að þau séu niðurgreidd af menntamálaráðuneytinu,“ segir í erindi FA. „Það gefur auga leið að einkarekin fræðslufyrirtæki sem bjóða sambærilegt nám geta ekki með nokkru móti keppt við þessi niðurgreiddu námskeið. FA er kunnugt um að námskeið hjá slíkum fyrirtækjum hafi verið felld niður, með tilheyrandi tekjutapi, þar sem fyrirtækin sjá ekki tilgang í að keppa við þetta niðurgreidda kostaboð. Fyrirtækin eru eins og mörg önnur í erfiðri stöðu eftir að hafa misst viðskipti í heimsfaraldrinum og máttu sízt við því að ákvarðanir stjórnvalda stuðluðu að enn frekari tekjumissi.“

Í bága við EES
FA fær heldur ekki betur séð en að útfærsla niðurgreiðslunnar brjóti gegn 61. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem leggur bann við samkeppnishamlandi ríkisstyrkjum, sem hafa áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna. Áðurnefnd námskeið opinberra og/eða ríkisstyrktra háskóla eru meðal annars í beinni samkeppni við námskeið fyrirtækja í öðrum EES-ríkjum, sem haldin eru á netinu fyrir íslenska viðskiptavini eða í samstarfi við íslensk fræðslufyrirtæki. Sum íslensk fyrirtæki í þessum geira eru hluti af víðtæku alþjóðlegu neti fræðslufyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum sem FA aflaði sér hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafa þessir ríkisstyrkir ekki verið bornir undir stofnunina líkt og t.d. ferðagjöf stjórnvalda.

Útfæra mætti stuðninginn án þess að skaða samkeppni
Að mati FA brýtur niðurgreiðsla ráðuneytisins á samkeppnisstarfsemi háskólanna jafnframt gegn lögum um opinbera háskóla og samkeppnislögum. Í erindinu til ráðherra segir að tilgangur aðgerðanna, að ýta undir sumarnám og auðvelda fólki atvinnuleit, sé að sjálfsögðu góðra gjalda verður en útfærslan skekki augljóslega mjög samkeppnisstöðuna á fræðslumarkaði, sem var skökk fyrir vegna samkeppni háskólanna við einkarekin fræðslufyrirtæki. „Auðveldlega hefði mátt útfæra a.m.k. hluta stuðningsins með öðrum hætti, til dæmis á svipaðan máta og „ferðagjöf“ stjórnvalda með e.k. ávísanakerfi, þar sem áhugasamir gætu nýtt námsstyrk frá ráðuneytinu ýmist hjá háskólum sem njóta ríkisstuðnings eða hjá einkareknum fræðslufyrirtækjum. Þannig hefði mátt ná markmiðum stuðningsins án neikvæðra áhrifa á samkeppni,“ segir í erindi FA.

Þess er farið á leit við ráðherra að hún hlutist til um að gripið verði þegar í stað til aðgerða til að rétta samkeppnisstöðuna á fræðslumarkaðnum með því að stuðningur ráðuneytisins við námskeiðahald í samkeppnisrekstri nái ekki síður til einkarekinna fyrirtækja á þeim markaði en þeirra stofnana sem eru í eigu ríkisins eða njóta þegar ríkisstuðnings. Til lengri tíma litið ætti ráðuneytið að beita sér fyrir því að ólögmætri starfsemi háskólanna í samkeppni við einkafyrirtæki verði hætt eða fjárhagslegur aðskilnaður samkeppnisrekstrar og ríkisstyrkts háskólanáms í það minnsta tryggður.

Samkeppniseftirlitinu og Eftirlitsstofnun EFTA voru send afrit af erindinu til ráðherra.

Erindi FA til menntamálaráðherra

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning