Félag atvinnurekenda gagnrýnir niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), sem hefur fallist á að veita Íslandspósti framlag úr galtómum jöfnunarsjóði alþjónustu. Lögmaður félagsins segir Póst- og fjarskiptastofnun í „júridiskum utanvegaakstri.“
Íslandspóstur sótti í október um afturvirkar greiðslur vegna meintrar alþjónustubyrði á árunum 2013-2017. Félag atvinnurekenda sendi PFS erindi, þar sem var rökstutt að umsóknin væri ólögmæt. Lög og reglugerð um póstþjónustu gera eingöngu ráð fyrir að sótt sé um framlög úr sjóðnum fyrirfram. Eðlilegast hefði því verið, að mati FA, að vísa umsókn Íslandspósts frá.
Stofnunin tók umsókn Íslandspósts engu að síður til greina, vísaði hluta hennar frá þar sem hún taldi Póstinn þegar hafa fengið tapið bætt í gegnum gjaldskrárhækkanir, en samþykkti tæplega 1.500 milljóna króna framlag til fyrirtækisins vegna taps af erlendum póstsendingum. Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður FA, gagnrýnir niðurstöðuna harðlega í Viðskiptablaðinu í dag.
Áfangastaðurinn úti í móa
Samkvæmt reglugerð um alþjónustu ber umsækjanda úr sjóðnum að senda inn umsókn fyrir 1. september og skal umsóknin ná til næsta árs. Hið sama segir í lögum um póstþjónustu. Líkt og áður segir var umsókn Póstsins hins vegar afturvirk. PFS tók umsóknina engu að síður til efnismeðferðar og vísar í því samhengi á tólf ára gamlan úrskurð úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála vegna umsóknar Símans um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir fjarskipti. Þar benti nefndin á að í fjarskiptalögum segir að umsókn skuli „að jafnaði“ vera framvirk. „Öfugt við fjarskiptalögin, sem hafa þennan fyrirvara „að jafnaði“, þá er ekkert slíkt í lögunum um póstþjónustu. PFS er því í júrídískum utanvegarakstri sem eðli málsins samkvæmt leiðir ekki á neinn áfangastað nema út í móa. Ákvörðunin er eins röng og ólögmæt og hugsast getur og það er litlum vafa undirorpið að hún verður ógilt ef einhver krefst þess,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson í Viðskiptablaðinu í dag.
Glórulaust að leggja jöfnunargjald afturvirkt á keppinauta
Í umfjöllun Viðskiptablaðsins kemur fram að það hvort lagaskilyrði hafi verið uppfyllt fyrir úthlutuninni sé ekki eina álitaefnið sem uppi er. Samkvæmt lögum skal jöfnunarsjóður alþjónustu fjármagnaður með lögákveðnu gjaldi sem lagt er á rekstrarleyfishafa. Það gjald hefur hins vegar aldrei verið lagt á og því er ekki til króna í sjóðnum. Fyrir jól samþykkti Alþingi heimild til að veita Íslandspósti allt að 1,5 milljarða neyðarlán til að mæta lausafjárþurrð. Fullyrti ÍSP að fyrirtækið myndi endurgreiða lánið með framlagi úr jöfnunarsjóðnum.
Nú eru því tveir kostir uppi í stöðunni. Í þeim fyrri felst að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp um að virkja sjóðinn til að unnt sé að greiða ÍSP milljónirnar 1.463. Þá þyrfti að leggja gjald á fyrirtæki á póstmarkaði. Íslandspóstur myndi væntanlega greiða sjálfur yfir 80% þess, en keppinautar fyrirtækisins yrðu rukkaðir um hundruð milljóna til viðbótar. „Álagning gjaldsins væri náttúrulega glórulaus. Afturvirknin ein og sér felur í sér að það væri fráleitt að láta sér detta það í hug. Það hafa fallið dómar í Hæstarétti um tilraunir til afturvirkrar gjaldtöku og henni hefur alltaf verið hafnað,“ segir Páll Rúnar í Viðskiptablaðinu.
Fær Íslandspóstur framlag frá ríkinu til að greiða lán frá ríkinu?
Hinn kosturinn væri að úthlutunin úr sjóðnum yrði fjármögnuð af ríkissjóði. „Með öðrum orðum, ríkið mun afhenda ÍSP tæplega 1,5 milljarða svo að hið opinbera hlutafélag muni geta endurgreitt neyðarlánið frá ríkinu fallist Alþingi á slíka lánveitingu. Útlit er þó fyrir að ekkert verði af frekari lánveitingu til ÍSP eftir að ríkisábyrgðasjóður sagði að vandi fyrirtækisins væri slíkur að hann yrði ekki leystur með lánsfé. Þess í stað var lagt til að hlutafé yrði aukið um 1,5 milljarða á árinu,“ segir í umfjöllun blaðsins.