Röng tollflokkun á pitsuosti komin á lista ESB yfir viðskiptahindranir – nýr fjármálaráðherra hyggst breyta flokkuninni í lögmætt horf

14.02.2025

Evrópusambandið hefur í fyrsta sinn sett Ísland á lista yfir viðskiptahindranir, sem útflutningsfyrirtæki í ESB-ríkjum eru beitt í ríkjum utan sambandsins. Ástæðan er ákvörðun Skattsins árið 2020, sem tekin var undir þrýstingi frá fjármálaráðuneytinu, Bændasamtökum Íslands og Mjólkursamsölunni, um að breyta tollflokkun á pitsuosti með íblandaðri jurtaolíu. Nýr fjármálaráðherra hefur nú birt í samráðsgátt stjórnvalda áform um lagasetningu sem breytir tollflokkuninni aftur til lögmæts horfs. Félag atvinnurekenda fagnar því að vinda eigi ofan af því stjórnsýsluhneyksli, sem fyrri ákvörðun stjórnvalda var.

Forsaga málsins er í stuttu máli sú að Danól ehf., félagsmaður FA, flutti inn pitsuost með íblandaðri jurtaolíu og var hann samkvæmt ráðleggingum starfsmanna tollstjóra hjá Skattinum flokkaður í 21. kafla tollskrárinnar, sem ber ekki tolla. MS og Bændasamtökin þrýstu á stjórnvöld að flokka vöruna í 4. kafla tollskrárinnar, sem ber háa tolla. Látið var undan þeim þrýstingi og bar yfirtollvörður fyrir dómi í máli Danóls gegn ríkinu að fjármálaráðuneytið hefði gert embættinu að „fremja ólög“. Heil deild hjá Skattinum sagði sig frá málinu í framhaldinu en tollflokkuninni var engu að síður breytt.

Ísland neitaði að fara eftir ákvörðun Alþjóðatollastofnunarinnar
Osturinn var fluttur inn frá Belgíu. Tollflokkun íslenskra stjórnvalda var í andstöðu við afstöðu belgískra tollayfirvalda, formlega afstöðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og túlkun Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO). Evrópusambandið lét á málið reyna hjá WCO og komst tollflokkunarfundur stofnunarinnar að þeirri niðurstöðu í mars 2023 að varan ætti að flokkast í 21. kafla tollskrárinnar. Íslensk stjórnvöld hafa neitað að fara eftir þeirri niðurstöðu og m.a. borið fyrir sig dóm í máli Danóls gegn íslenska ríkinu, en fyrir liggur að dómurinn var leyndur gögnum, m.a. um afstöðu Evrópusambandsins og WCO.

Ísland sett á viðskiptahindranalista í fyrsta sinn
Eftir að belgíski útflytjandinn kvartaði til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins var tekin ákvörðun um að setja Ísland í fyrsta sinn á lista yfir viðskiptahindranir, sem ríki utan ESB beita útflytjendur innan sambandsins. Í lýsingu málsins kemur fram að varan eigi að njóta tollfrelsis samkvæmt bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en íslensk stjórnvöld hafi flokkað hana í tollflokk sem beri 30% verðtoll og 798 króna magntoll á kíló, sem „hindri þannig útflutning frá ESB til Íslands.“

Áform um að breyta tollflokkun til fyrra horfs
Fyrr í vikunni voru birt í samráðsgátt stjórnvalda áform um lagasetningu, þar sem lögð er til leiðrétting á tollflokkuninni til fyrra horfs. Þar er m.a. vísað til ofangreindrar ákvörðunar WCO og tekið fram að hún sé ekki í samræmi við niðurstöður íslenskra dómstóla. „Samkvæmt 189. gr. tollalaga nr. 88/2005 er heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á íslensku tollskránni til samræmis við úrskurði eða álit WCO. Nú er áformað að innleiða túlkun WCO á fyrrnefndri athugasemd við 4. kafla tollskrárinnar. Þar sem fyrir liggur niðurstaða dómstóla hér á landi um það hvernig túlka beri áðurnefnda athugasemd við 4. kafla tollskrárinnar þarf að breyta tollskránni með lagabreytingu,“ segir í áformaskjalinu. Þar er hins vegar tekið fram að þessi áformaða breyting á lögum muni ekki hafa afturvirkt gildi.

FA fagnar niðurstöðunni
„Við fögnum þessum viðsnúningi nýrrar ríkisstjórnar eindregið,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Málið allt var stjórnsýsluhneyksli frá upphafi til enda. Látið var undan þrýstingi frá hagsmunaaðilum og vara færð á milli tollflokka, þvert á álit tollflokkunarsérfræðinga Skattsins. Fjármálaráðuneytið beitti óeðlilegum þrýstingi. Gögnum var stungið undir stól og þau bæði falin fyrir fyrirtækinu sem í hlut á, sem er brot á stjórnsýslulögum, og fyrir dómstólum. Ísland hunsaði álit Alþjóðatollastofnunarinnar og tók þar að auki vöru, sem er tollfrjáls samkvæmt EES-samningnum og færði hana í tollflokk sem ber háa tolla. Fyrrverandi fjármálaráðherra varði þennan gjörning með kjafti og klóm á Alþingi. Að íslensk stjórnvöld hunsi alþjóðlegu tollskrána, ákvarðanir WCO, EES-samninginn og sjónarmið ESB, sem er okkar stærsti markaður, skapar stórvarasamt fordæmi. Þessi leikur verður vonandi aldrei endurtekinn, enda setja slík vinnubrögð utanríkisviðskipti Íslands í uppnám.“

Ólafur segist þó hugsi yfir því að tollskrárbreytingin eigi ekki að vera afturvirk. „Fyrir liggur að félagsmaður okkar varð fyrir hundraða milljóna tjóni vegna rangra ákvarðana stjórnvalda. Það blasir við að fyrirtækið sæki það tjón á hendur stjórnvöldum.“

Nýjar fréttir

Innskráning