Rýmkað um tollfrjálsan innflutning á grænmeti – vonandi minni líkur á skorti

29.12.2021
Lagabreytingin fækkar vonandi þeim tilvikum sem háir tollar eru lagðir á innflutning á sama tíma og ekkert íslenskt grænmeti er til.

Alþingi samþykkti í gær breytingu á búvörulögum, bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að rýmkað verður um tollfrjálsan innflutning á grænmeti á árinu 2022. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gerði tillögu til þingsins um þessa breytingu eftir að Félag atvinnurekenda og Bændasamtök Íslands höfðu sent ráðuneytinu sameiginlegar tillögur um breytingu á þeim tímabilum, sem tollar eru lagðir á innflutt grænmeti.

Þingið þrengdi tímabil tollfrjáls innflutnings
Forsaga málsins er sú að 2019 flutti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frumvarp sem fól í sér ýmar breytingar á tollaumhverfi innflutnings búvara. Felld voru niður ákvæði sem heimiluðu ráðherra að gefa út svokallaðan skortkvóta ef innlenda framleiðslu vantar á markaðinn en þess í stað skilgreind fastákveðin tímabil, sem flytja má inn viðkomandi vöru, aðallega grænmeti, án tolla. FA gagnrýndi þau ákvæði frumvarpsins og lagði til verulega rýmkun á tímabilunum. Í meðförum atvinnuveganefndar Alþingis þrengdust þau hins vegar. FA varaði þá þegar við afleiðingunum og benti á að reglulega myndi koma upp skortur á tilteknum grænmetistegundum. Niðurstaðan yrði annaðhvort að þær yrðu ófáanlegar eða innflutningur yrði á miklu hærra verði en þyrfti að vera, þótt engin innlend vara væri til. Það hefur síðan komið á daginn varðandi ýmsar grænmetistegundir, t.d. kartöflur og gulrætur. Síðastliðið haust keyrði um þverbak þegar ekkert sellerí var til í búðum á tímabili og sáralítið af blómkáli og spergilkáli, vegna þess að vörurnar voru ekki til hjá innlendum framleiðendum og tollar svo háir að innflytjendur treystu sér ekki til að flytja grænmetið inn.

Stefnt að beinum stuðningi við grænmetisrækt í stað tollverndar
FA og Bændasamtök Íslands voru í hópi samtaka, sem á sínum tíma skoruðu á þáverandi landbúnaðarráðherra að vinna betur frumvarpið sem varð að lögum í árslok 2019. Þeirri áskorun var ekki svarað. Í framhaldi af því að grænmetisskortur kom upp í haust, settust FA og Bændasamtökin sameiginlega yfir málið og áttu í framhaldinu sameiginlegan fund með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, þar sem ákveðið var að samtökin myndu senda ráðuneytinu tillögur, sem miðuðu að því að rýmka um tollfrjálsan innflutning á árinu 2022 með það að markmiði að minnka líkur á að svipað ástand kæmi upp, enda væru það sameiginlegir hagsmunir neytenda, innflutningsfyrirtækja og bænda. Ástæða þess að bráðabirgðaákvæðið, sem nú hefur verið sett í lög, gildir aðeins fyrir árið 2022, er að á árinu stendur til að gera nýjan búvörusamning ríkisins og garðyrkjubænda, þar sem eitt af markmiðunum samkvæmt núverandi búvörusamningi er að taka upp uppskerutengdar greiðslur vegna útiræktaðs grænmetis og kartaflna, á móti mögulegri lækkun eða niðurfellingu tollverndar fyrir þessar afurðir.

 

 

 

 

 

Í töflunni hér að ofan má sjá breytinguna; tímabilin sem tollar verða lagðir á árið 2022 (grænir reitir) í samanburði við tímabilin eins og þau hafa verið undanfarin tvö ár (rauðir reitir). Tímabil tollverndar fyrir blómkál styttist um tvær vikur, fyrir gulrætur um tíu vikur, fyrir hvítkál um sex vikur, fyrir kartöflur um mánuð (júní), fyrir kínakál og rauðkál um tvær vikur og fyrir spergilkál um átta vikur. Tollvernd fyrir sellerí (selju) fellur alfarið niður.

FA gerði þann fyrirvara við tillögu sína og BÍ til ráðuneytisins að endurskoða þyrfti tollfrjálsa „gluggann“ fyrir kartöflur á meðan málið væri í meðförum þingsins, m.a. vegna kartöflumyglu sem kom upp í Þykkvabæ í haust. FA lagði til við efnahags- og viðskiptanefnd að tollvernd fyrir kartöflur yrði felld niður strax í maí, en BÍ hélt sig við að „glugginn“ næði aðeins til júnímánaðar og varð það niðurstaðan.

Markmiðið að stuðningur færist úr tollvernd í beingreiðslur
„Það er einkar ánægjulegt að þessi tímabundna lausn fannst á þeim vandkvæðum, sem gölluð löggjöf skapaði á grænmetismarkaðnum, í góðu samstarfi okkar, Bændasamtakanna og stjórnvalda,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Það er mikið hagsmunamál neytenda og ekki síður fyrirtækja sem flytja inn grænmeti að háir tollar séu ekki lagðir á innfluttar vörur á sama tíma og innlendir framleiðendur eiga þær ekki til hjá sér. Við höfum fundið vel að það er heldur ekki vilji garðyrkjubænda að vörur vanti í verslanir. Þessi breyting fækkar því vonandi þeim tilvikum þar sem gölluð löggjöf veldur beinlínis vöruskorti í verslunum. Markmiðið til lengri tíma á klárlega að vera að stuðningur við innlenda grænmetisrækt færist sem allra mest úr tollum og yfir í beinar greiðslur. Það gaf góða raun varðandi tómata, gúrkur og paprikur á sínum tíma og enginn vafi er á að sama mun eiga við um útiræktað grænmeti.“

Nýjar fréttir

Innskráning