Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, og Elliða Vignissonar, bæjarstjóra Sveitarfélagsins Ölfuss, í Morgunblaðinu 6. desember 2025.
Ákvæði þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2026-2040, sem innviðaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi, eru stefnubreyting hvað varðar uppbyggingu á Þorlákshöfn sem vöruhöfn. Öllum framlögum sem tryggja áttu framþróun hafnarinnar sem mótvægis við ægivald Faxaflóahafna er frestað um þrjú ár og þau skert verulega. Þorlákshöfn gegnir í dag ákveðnu lykilhlutverki fyrir inn- og útflutning. Þar hefur byggst upp öflug starfsemi tveggja flutningafélaga, sem hafa hrist upp í gömlum fákeppnismarkaði og veita gömlu skipafélögunum nú harða samkeppni. Að mati greinarhöfunda er það hlutverk stjórnvalda að styðja við og efla þá samkeppni, íslensku atvinnulífi og neytendum til hagsbóta.
Keppinautum verði tryggður aðgangur að hafnaraðstöðu
Fyrir rúmum tveimur árum, í kjölfar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins (SE) vegna ólögmæts samráðs Samskipa og Eimskips, gaf eftirlitið út álit með tilmælum til stjórnvalda, meðal annars innviðaráðuneytisins, um leiðir til að efla samkeppni í flutningum. Þar á meðal var að „stjórnvöld og hlutaðeigandi opinberir aðilar tryggi aðgengi nýrra og minni keppinauta í sjóflutningum að fullnægjandi hafnaraðstöðu og skipaafgreiðslu hér á landi.“
Félag atvinnurekenda hefur lagt ríka áherslu á að efla samkeppni í skipaflutningum, enda hefur hátt verð, lítil samkeppni og ógegnsæjar gjaldskrár stóru skipafélaganna verið áralangt umkvörtunarefni félagsmanna FA. Öflug samkeppni í skipaflutningum er ekki síður hagsmunamál neytenda, enda hefur flutningskostnaður veruleg áhrif á vöruverð hér á landi. Félagið fylgdi því áliti Samkeppniseftirlitsins eftir með ítrekuðum erindum til innviðaráðherra, þar sem spurt var hvernig ráðuneytið hygðist bregðast við áliti SE. Við þeim erindum hafa enn ekki borist efnisleg svör, en ráðuneytið hefur þó svarað því til að það taki álit samkeppnisyfirvalda alvarlega og vinni að stefnumótun í málinu. Á sama máta hefur Sveitarfélagið Ölfus tekið afstöðu Samkeppniseftirlitsins alvarlega og tryggt aðgengi nýrra og minni aðila að hafnaraðstöðu og þannig stuðlað að aukinni samkeppni.
Ástand veganna er samkeppnishindrun
Síðastliðið sumar sendi FA Eyjólfi Ármannssyni innviðaráðherra enn erindi og vakti athygli hans á stöðunni á markaðnum fyrir skipaflutninga. Tveir helstu keppinautar stóru skipafélaganna, Smyril Line og Torcargo, hafa komið sér fyrir Í Þorlákshöfn. Smyril Line Cargo hefur starfað þar um nokkurt árabil og heldur uppi áætlunarsiglingum milli Þorlákshafnar og Þórshafnar, Hirtshals og Rotterdam. Torcargo hóf síðastliðið sumar áætlunarsiglingar milli Rotterdam og Þorlákshafnar. Margir kostir eru við staðsetninguna í Þorlákshöfn, m.a. að siglingaleiðin er styttri og sótsporið minna. Hins vegar þurfa skipafélögin, sem þar starfa, að flytja vörur um lengri veg á landi til stærsta markaðarins á höfuðborgarsvæðinu en stóru skipafélögin, sem hafa aðstöðu í Sundahöfn. Það skiptir því máli í samkeppnislegu tilliti að landleiðin sé sem greiðust.
FA aflaði upplýsinga hjá Vegagerðinni um ástand Þrengsla- og Þorlákshafnarvegar, sem tengja Þorlákshöfn við þjóðveg 1. Í svörum stofnunarinnar kom m.a. fram að Þrengslavegur er ekki í efsta flokki vetrarþjónustu, þurft hefur að loka honum oftar en veginum um Hellisheiði, hann er ekki eins breiður og Vegagerðin telur æskilegt og hluti Þrengslavegar og hluti Þorlákshafnarvegar eru með skert burðarþol. Á undanförnum fjórum árum hafa 10 tonna ásþungatakmarkanir verið settar á Þrengslaveg í samtals 106 daga. Engar slíkar takmarkanir hafa verið settar á aðrar aðalleiðir á suðvesturhorninu á sama tíma.
FA benti á að vegtenging við Þorlákshöfn, sem er síðri að gæðum en aðrar aðalleiðir á suðvesturhorninu, er að sjálfsögðu samkeppnishindrun í vegi skipafélaganna sem starfa í Þorlákshöfn. FA og Sveitarfélagið Ölfus hafa bæði beint því til ráðherra að hann beiti sér fyrir því að uppbygging Þrengslavegar – og eftir atvikum Þorlákshafnarvegar – þannig að vegurinn verði að fullu sambærilegur við aðrar aðalleiðir á svæðinu, verði sett á samgönguáætlun hið fyrsta.
Brýn þörf á hafnarbótum
Eins og gefur að skilja eru hafnarbætur í Þorlákshöfn sérstaklega mikilvægar fyrir starfsemi skipafélaganna þar og samkeppnina. Fyrir liggur brýn þörf á að lengja Skarfaskersbryggju í Þorlákshöfn þannig að ný, stærri og umhverfisvænni skip Smyril Line, sem nú eru í smíðum og verða afhent næsta sumar, geti lagst þar að. Allir sjá hversu alvarlegt það er gagnvart skipafélagi sem réðist í afar kostnaðarsama nýsmíði flutningaskipa, sérhannaðra til siglinga á Þorlákshöfn, á forsendum gildandi samgönguáætlunar, þegar á seinustu metrunum er dregið í land og uppbyggingu aðstöðu frestað.
Greinarhöfundar óskuðu í sameiningu eftir fundi með innviðaráðherra, sem fór fram 18. nóvember síðastliðinn. Þar útskýrðu þeir ofangreind sjónarmið og mikilvægi þess, ekki síst út frá mikilvægi virkrar samkeppni í flutningum, að bættar samgöngur við Þorlákshöfn yrðu tryggðar í samgönguáætlun.
Það voru undirrituðum því veruleg vonbrigði að sjá að í tillögu ráðherra að samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði til lengingar Skarfaskersbryggju fyrr en á árinu 2029. Eins og áður segir, verða hin nýju skip Smyril Line, sem þurfa lengri viðlegukant, afhent næsta sumar. Ekki eru síður vonbrigði að sjá að fjárframlag til breikkunar Þrengslavegar um Skógarhlíðarbrekkur á ekki að koma til fyrr en árin 2029 og 2030. Hér ganga samgönguyfirvöld algerlega gegn fyrrgreindu áliti Samkeppniseftirlitsins.
Samkeppnismál og almannahagsmunir
Hér er um að ræða mál sem varðar miklu stærri hagsmuni en hag eins sveitarfélags eða eins eða tveggja fyrirtækja. Virk samkeppni í flutningum, þar sem keppinautar njóta sem jafnastrar aðstöðu, er hagsmunamál atvinnulífs og neytenda á Íslandi almennt. Þetta mál varðar alla Íslendinga. Greinarhöfundar skora á Alþingi að gera breytingar á forgangsröð samgönguáætlunar hvað Þorlákshöfn varðar og munu fylgja þeirri áskorun eftir gagnvart umhverfis- og samgöngunefnd þingsins.