Samið um breytt stjórnkerfi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

24.04.2018
Undirritun samkomulagsins. F.v. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.

Félag atvinnurekenda, VR og Samtök atvinnulífsins skrifuðu í gær undir kjarasamning um breytt stjórnkerfi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE). Samkomulagið felur meðal annars í sér að skipað verður fulltrúaráð við sjóðinn, að mun strangara ferli gildir um val stjórnarmanna í sjóðnum og að stjórnarmenn sitji ekki í stjórnum fyrirtækja þar sem lífeyrissjóðurinn á hlut.

Í fulltrúaráði sjóðsins skulu sitja 50 manns, 25 frá VR og 25 frá atvinnurekendum, en FA skipar tvo af þeim fulltrúum. Í fulltrúaráðinu skulu sitja sjóðfélagar eða stjórnendur fyrirtækja sem greiða lífeyrisiðgjöld til sjóðsins. Fulltrúaráðið fer með atkvæði á ársfundi sjóðsins í umboði aðildarsamtakanna.

FA á einn af fjórum fulltrúum atvinnurekenda í átta manna stjórn sjóðsins. Ýmsar nýjar reglur taka nú gildi um val og hæfi stjórnarmanna. Þannig verður auglýst eftir stjórnarmönnum og skulu starfa uppstillingarnefndir aðildarsamtaka sjóðsins sem fara yfir umsóknir um stjórnarsetu og gera tillögu til fulltrúaráðs um stjórnarmenn, að undangengnu samráði sem á að tryggja að stjórn sjóðsins búi sem heild yfir þeirri þekkingu og reynslu sem gerir henni kleift að rækja hlutverk sitt.

Með samkomulaginu taka gildi ýtarlegar reglur sem eiga að fyrirbyggja hagsmunaárekstra í störfum stjórnar sjóðsins. Þannig skulu stjórnarmenn til dæmis ekki sitja í stjórn, eiga eignarhlut eða stunda viðskipti fyrir eigin reikning í fyrirtækjum sem sjóðurinn á hlut í nema um óverulegar upphæðir sé að ræða. Hjá sjóðnum skal starfa sérstök nefnd um starfskjör stjórnar.

Þau ákvæði sem gilda um stjórnarhætti LIVE eru samhljóða ákvæðum í samningi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, sem undirritaður var í dag.

„Þessar breytingar eru allar tímabærar og í fullu samræmi við þá hugsun um ábyrga stjórnarhætti sem hefur rutt sér til rúms í atvinnulífinu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Þessar breytingar stuðla sömuleiðis að því að tengja bæði sjóðfélaga og aðildarfyrirtæki atvinnurekendasamtakanna betur við Lífeyrissjóð verzlunarmanna.“

Samningur FA, SA og VR um LIVE

Kjarasamningur SA og ASÍ um stjórnkerfi lífeyrissjóða

Nýjar fréttir

Innskráning