Á læknadögum í Hörpunni, þann 23. janúar var samningur undirritaður fyrir hönd félagsmanna og aðildarfyrirtækja Læknafélags Íslands, Frumtaka, Félags atvinnurekenda og Samtaka verslunar og þjónustu. Samningurinn fjallar um samskipti milli lækna, lyfjafyrirtækja og fyrirstækja sem flytja inn lyf og á að tryggja að báðir aðilar njóti faglegs sjálfstæðis svo hægt verði að bæta meðferð við sjúkdómum.
Lyfjafyrirtæki í röðum Frumtaka hafa í samskiptum sínum við lækna starfað eftir siðareglum og með samningnum eru þær siðareglur staðfestar. Samningurinn er grundvallaður á siðareglum „EFPIA um samskipti við fagfólk í heilbrigðisstétt og kynningu lyfseðilsskyldra lyfja“ og „List of Guiding Principles Promoting Good Governance in the Pharmaceutical Sector“ en lyfjaiðnaðurinn, félög heilbrigðisstétta, sjúklingafélög innan ESB og EFPIA, Evrópusamtaka samtaka frumlyfjaframleiðenda hafa samþykkt þessar reglur.
Á heimasíðu Frumtaka er samningnum lýst.
„Með samningnum eru meðal annars reglur um námsferðir festar í sessi svo tryggja megi áframhaldandi og nauðsynleg samskipti lyfjafyrirtækja og lækna. Sem dæmi má nefna að öll fræðsla sem miðar að kynningu á nýjum lyfjum, og meðferð þeirra, skal vera samkvæmt fyrirfram skipulagðri dagskrá. Kynningar skulu vera hlutlægar, nákvæmar og sannar og í samræmi við lög og siðareglur. Ennfremur skuli veitingum á lyfjakynningum, ef einhverjar eru, vera stillt í hóf.
Samningurinn er í sjö greinum sem taka á markmiðum samningsins, fræðslu og kynningum, styrkjum, rannsóknarsamstarfi, ráðgjafastörfum og upplýsingagjöf, óheimilum þóknunum og loks gildistöku og uppsögn.
Í samningnum, og nánar í siðareglunum, er til að mynda ákvæði um styrki til lækna til að sækja fræðslufundi sem ekki eru kostaðir að fullu samkvæmt kjarasamningi. Skýrt er kveðið á um að óheimilt er að greiða lækni ferðakostnað maka. Tiltaka skal sérstaklega í upphafi atburðar að lyfjafyrirtæki styrki atburðinn, t.d. ef um er að ræða styrktan fund, námskeið eða málþing, sem haldin eru á vegum lækna eða með þátttöku þeirra.
Þá er í samningnum einnig kveðið á um hvernig rannsóknarsamstarfi um lyfjarannsóknir skuli háttað en þar eru miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenska heilbrigðiskerfið, og raunar samfélagið allt. Læknum verður ennfremur heimilt að taka að sér ráðgjafarstörf með skriflegum samningi við lyfjafyrirtæki að því tilskyldu að starfa þeirra í þágu lyfjafyrirtækjanna verði getið.
Þá verður eftir sem áður með öllu óheimilt að bjóða læknum fé eða gjafir fyrir lyfjakynningu og mega þeir ennfremur ekki fara fram á slíkt.“
Eins og áður var nefnt var samningurinn undirritaður í Hörpu á læknadögum og er Félag atvinnurekenda mjög ánægt með undirritun hans.