Samið verði um kaupmátt fremur en nafnlaunahækkanir

08.09.2022
Rannveig á fjar-félagsfundi FA í morgun.

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri segir að í kjaraviðræðum sem framundan eru á vinnumarkaði verði að semja um kaupmátt fremur en nafnlaunahækkanir. Hún segir að ábyrgðin á því að ná niður verðbólgunni liggi víðar en bara hjá Seðlabankanum, til dæmis hjá fyrirtækjum sem ákveða verð og hjá þeim sem taka ákvarðanir um efnahagsleg umsvif í landinu.

Rannveig var gestur á fyrsta félagsfundi FA eftir sumarhlé og fjallaði um horfur í efnahagsmálum. Margar hagtölur eru til vitnis um mikla spennu í hagkerfinu; einkaneysla er áfram mikil, fyrirtækjum sem eru við hámark framleiðslugetu sinnar fer fjölgandi og jafnframt fjölgar fyrirtækjum sem vantar starfsfólk mjög.

Háar verðbólguvæntingar en jákvæð teikn
Rannveig sagði of snemmt að segja hvort verðbólgutoppnum væri náð, þótt verðbólgan hafi lækkað úr 9,9% á ársgrundvelli í 9,7% í ágúst. Spá Seðlabankans frá því í ágúst gerir ráð fyrir að verðbólga nái 11% í lok ársins og verði ekki komin niður í 4% fyrr en 2024. Verðbólguvæntingar jafnt heimila, fyrirtækja og markaðsaðila eru áfram háar og sagði Rannveig það áhyggjuefni.

Hins vegar væru ýmis jákvæð teikn á lofti; húsnæðismarkaðurinn væri að kólna, alþjóðlegur flutningskostnaður færi lækkandi á ný og álagið á alþjóðlegar áfangakeðjur færi minnkandi. Þá hefðu hrávörur á borð við eldsneyti, málma og búvörur byrjað að lækka aftur á heimsmarkaði.

Varaseðlabankastjóri benti á að launakostnaður hefði stuðlað að hækkun á verði þjónustu undanfarið og að hlutfall launa og landsframleiðslu hefði haldist lítið breytt í kórónuveirukreppunni, ólíkt fyrri áföllum sem riðið hafa yfir í þjóðarbúskapnum.

Ekki auka framlegð við verðákvarðanir
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, spurði í framhaldinu út í hugsanleg áhrif launahækkana í komandi kjarasamningum á verðbólgu. Hann vitnaði til samtala við félagsmenn, sem hafa á undanförnum mánuðum þurft að takast á við tvær kjarasamningsbundnar launahækkanir, auk hækkana á flestum aðföngum og hafa þurft að leita allra leiða til að velta þessum hækkunum ekki út í verðlagið. Ólafur spurði hvort ekki væri nokkuð ljóst að ef kröfur sumra verkalýðsleiðtoga um að fá verðbólguna bætta með launahækkunum gengju eftir, myndi það valda enn meira verðbólgu og ýta undir vítahring víxlhækkana launa og verðlags, sem Rannveig hafði nefnt að yrði að forðast.

Rannveig svaraði því til að margar ákvarðanir skiptu máli varðandi glímuna við verðbólguna. Fyrirtæki yrðu að gæta að því að auka ekki framlegð sína við ákvarðanir um verð á vörum, af því að það væri „hvort sem er allt að hækka“. Það skipti líka máli að samið yrði um kaupmátt. Á undanförnum misserum hefði kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist, sem skipti líka máli þegar farið væri inn í kjarasamninga. „Það væri æskilegt að í umræðunni um kjarasamninga fókuseraði fólk á að semja um kaupmátt en ekki nafnlaunahækkanir.“

Glærur Rannveigar

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning