Samið verði um skynsamlegar launahækkanir

28.12.2017

Viðskiptamogginn leggur spurningu fyrir forsvarsmenn hagsmunasamtaka í atvinnulífinu í blaðinu í dag, 28. desember: „Hvaða breytingar myndirðu vilja sjá á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra þínum samtökum?“ Svar Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, er eftirfarandi:

Eitt allra mikilvægasta málið fyrir fyrirtæki og almenning í landinu er að samið verði um skynsamlegar launahækkanir á næstu misserum, sem raunveruleg innistæða er fyrir hjá atvinnulífinu og sem stuðla að því að varðveita kaupmáttinn. Við getum ekki aftur treyst á heppnina, í formi verðlækkunar á alþjóðamörkuðum og uppsveiflu í ferðaþjónustu, sem kom í veg fyrir að launahækkanir síðustu samninga færu út í verðlagið.

Fyrirheit nýrrar ríkisstjórnar um að stuðla að skynsamlegum kjarabótum og lækka tryggingagjaldið til að greiða fyrir slíku lofa góðu. Sama má segja um loforð stjórnarinnar um að gera átak í einföldun regluverks atvinnulífsins. Með því er hægt að spara fyrirtækjum og einstaklingum mikla fjármuni og fyrirhöfn. Ríkið þarf að gera allsherjartiltekt í eftirlitsgjöldum sem leggjast á fyrirtæki – á þessu ári vann FA skýrslu um eftirlitsgjöldin sem er prýðilegur leiðarvísir um slíka vinnu.

Við fögnum því að ný stjórn boðar átak í gerð fríverzlunarsamninga. Hún ætti líka að halda áfram að lækka einhliða tolla, sem nú orðið eru eingöngu á matvörum, og stuðla þannig að meiri samkeppni og betra vöruverði. Stjórnin ætti að hrista upp í ríkisfyrirtækjunum Isavia og Íslandspósti og taka fyrir ósanngjarna samkeppni þessara risa við einkafyrirtæki.

Nýjar fréttir

Innskráning