Samkeppnin eftir heimsfaraldur

17.04.2020

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 16. apríl 2020.

Heimsfaraldur COVID-19 veirunnar hefur haft gífurleg áhrif á efnahagslífið um allan heim. Því er nú spáð víða um lönd að ein af afleiðingum faraldursins verði aukin samþjöppun eignarhalds í atvinnulífi og meiri samkeppnishömlur. Ástæðurnar eru meðal annars stóraukin inngrip ríkisvaldsins í viðskiptalífið og að stöndugri fyrirtæki með greiðan aðgang að fjármagni eru líkleg til að kaupa upp minni keppinauta sem lenda í vandræðum vegna heimsfaraldursins. Minni og meðalstór fyrirtæki eru líkleg til að standa lakar að vígi að faraldrinum loknum en þau stærri.

Það er skynsamlegt að byrja að hugsa strax hvernig eigi að bregðast við þessari sennilegu þróun. Aðgerðir stjórnvalda til stuðnings atvinnulífinu – næsti áfangi þeirra verður kynntur í lok vikunnar – þurfa til dæmis að tryggja rekstrargrundvöll minni og meðalstórra fyrirtækja, ekki síður en þeirra stærri. Þrátt fyrir aukin ríkisumsvif þarf að tryggja að samkeppnisrekstur ríkisfyrirtækja og -stofnana þenjist ekki út. Standa þarf gegn hugmyndum um að hækka tolla og aðrar samkeppnishindranir.

Síðast en ekki sízt þarf að huga að skilvirku eftirliti með samkeppnisháttum eftir kreppuna sem heimsfaraldurinn hefur orsakað. Alþingismenn mættu gjarnan hafa í huga, þegar þeir fara að ræða frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingar á samkeppnislögum, að nú er alls ekki rétti tíminn til að veikja Samkeppniseftirlitið, heldur ætti þvert á móti að efla það.

Í dag eru eingöngu lögbundnir málsmeðferðarfrestir í samrunamálum. Það þýðir að ef stóru krakkarnir á markaðnum eru duglegir að kaupa önnur fyrirtæki fer mestur tími Samkeppniseftirlitsins í samrunamál, en umkvartanir minni fyrirtækja og samtaka þeirra vegna t.d. ólögmæts samráðs og misnotkunar þeirra stóru á markaðsráðandi stöðu sitja á hakanum. Félag atvinnurekenda hefur lagt til að lögfestir verði málsmeðferðarfrestir í fleiri málum, en það þýðir að efla þarf Samkeppniseftirlitið.

Það væri skynsamleg ráðstöfun á þessum tímapunkti.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning