„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 4. maí 2016.
Óhætt er að fullyrða að íslenzk stjórnvöld séu fremur áhugalaus um að greiða fyrir virkri samkeppni á markaði og sinni lítt eða ekki tilmælum Samkeppniseftirlitsins og alþjóðastofnana um að ríkið grípi til aðgerða í þeim tilgangi. Hins vegar er ríkið og stofnanir þess oft áhugasamt um samkeppni – þ.e. eigin samkeppni við einkarekin fyrirtæki. Ríkisfyrirtækið Isavia er prýðilegt dæmi um þessa þversögn.
Isavia fékk í fyrra þá einkunn Samkeppniseftirlitsins að hafa „neikvætt viðhorf til samkeppni“ vegna tregðu við að úthluta brottfarartímum flugfélaga á Keflavíkurflugvelli með sanngjörnum hætti. Á sama tíma bætir Isavia sífellt í samkeppni sína við verzlunina í landinu með rekstri Fríhafnarinnar í Leifsstöð. Úrvalið í Fríhöfninni er komið langt út fyrir áfengi og tóbak, hefðbundnar hágjaldavörur sem einu sinni voru uppistaðan í fríhafnarverzlun. Ríkið er orðið stærsti snyrtivörusali landsins, á drjúga markaðshlutdeild á sælgætismarkaðnum og sækir hratt í sig veðrið í nærfatasölu!
Hagsmunasamtök verzlunarinnar í landinu hafa barizt gegn þessari útþenslustefnu ríkisbúðarinnar. Félag atvinnurekenda hefur til dæmis staðið í bréfaskiptum við fjármálaráðuneytið undanfarin misseri um svokallaða Expressþjónustu Fríhafnarinnar, sem gengur út á að fólk kaupi vörur án opinberra gjalda á netinu og fái svo vin eða kunningja sem á leið um Leifsstöð til að sækja þær fyrir sig. Áfangasigur vannst í því máli nýlega þegar fjármálaráðherra lagði fram frumvarp sem leggur bann við því að vörur komuverzlunar Fríhafnarinnar verði boðnar öðrum til sölu en þeim sem eiga leið um flugvöllinn. Eðlilegast væri þó að afleggja komuverzlunina og bjóða út sölu á tollfrjálsum varningi í Leifsstöð til einkaaðila.
En hvað ætli sé að frétta af aðgerðum ríkisins til að tryggja sanngjarna samkeppni flugfélaga í Leifsstöð? Samkeppniseftirlitið lagði fyrir innanríkisráðherra í október í fyrra að grípa til tafarlausra aðgerða til að aflétta samkeppnishömlum við úthlutun afgreiðslutíma á flugvellinum. Ekkert hefur heyrzt af framkvæmdinni. FA skrifaði innanríkisráðherra bréf fyrir tæpum tveimur mánuðum og spurði fregna. Ekkert svar hefur borizt.
Áhugi ríkisins á ósanngjarnri samkeppni við einkaaðila virðist áfram meiri en að tryggja virka og sanngjarna samkeppni á markaðnum.