„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 4. febrúar 2021.
Hér á þessum stað var í upphafi heimsfaraldursins í fyrra hvatt til þess að strax yrði hugað að því að aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu hefðu ekki neikvæð áhrif á samkeppni.
Aðgerðir stjórnvalda í þágu atvinnulífsins hafa að stærstum hluta verið almennar og ekki samkeppnishamlandi. Þó hafa verið stigin slæm feilspor. Þar má nefna tuga milljóna framlag til niðurgreiðslu á samkeppnisrekstri ríkisstyrktra háskóla, á kostnað einkarekinna keppinauta þeirra. Annað dæmi er þegar lögum var breytt til að hækka álögur á innflytjendur búvara, í því skyni að hjálpa innlendum framleiðendum að takast á við afleiðingar faraldursins. Nær hefði verið að hjálpa búvöruframleiðendum beint og hafa þann stuðning allan uppi á borðinu.
Þriðja dæmið er hvernig Icelandair var veitt ríkisábyrgð á lánum án þess að huga nægilega að því að setja ríkisaðstoðinni skilyrði, sem tryggðu samkeppni. Þvert á móti er með ábyrgðinni í raun búið að binda hagsmuni ríkissjóðs við það að Icelandair fái ekki aukna samkeppni í flugi til og frá landinu.
Miðað við þær raddir sem heyrast úr ferðaþjónustunni að undanförnu er full ástæða til að hafa áhyggjur af samkeppnisstöðunni þar. Fyrr í vikunni kvörtuðu keppinautar Icelandair í ferðaskrifstofurekstri undan ójafnri stöðu gagnvart félaginu, þar sem það rekur sjálft eina stærstu ferðaskrifstofu landsins. Keppinautarnir saka Icelandair um að fara á svig við þá skilmála ríkisábyrgðarinnar að hún taki eingöngu til flugrekstrar. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins lýsti svo í gær áhyggjum af því að aukin ítök bankanna í ferðaskrifstofurekstri gætu hamlað samkeppni.
Þetta er staða sem bæði samkeppnisyfirvöld og ríkisstjórnin þurfa að hafa augun á. Félag atvinnurekenda mun beina sjónum að stöðu samkeppninnar á opnum streymisfundi í næstu viku. Það má ekki gerast að einn af sjúklingunum í heimsfaraldrinum verði virk og öflug samkeppni.