Samkeppniseftirlitið ætti að vera með útibú í Skagafirði

17.09.2021
Ólafur Stephensen og Björn Leví ræddu saman í Kaffikróknum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður og oddviti Pírata í Reykjavík suður, segir að efla eigi Samkeppniseftirlitið og það ætti helst að vera með útibú í Skagafirði. Píratar telja að borgaralaun hvetji fólk til að vinna fremur en letji og vilja allan fiskafla á fiskmarkað. Þetta var á meðal þess sem fram kom í samtali Björns Leví og Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kaffikróknum í morgun. Samtalið var í beinni útsendingu á Facebook og má horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Borgaralaun örvi atvinnu og nýsköpun
Píratar eru með þá stefnu að taka upp borgaralaun og tryggja öllum þjóðfélagsþegnum grunnframfærslu. Ólafur vitnaði til þess að ýmsir félagsmenn FA hefðu undanfarið átt erfitt með að ráða fólk í vinnu og dregið þá ályktun að of lítill munur væri á bótum og taxtalaunum og of lítil hvatning til að þiggja vinnu. Hann spurði hvort borgaralaun þýddu að fólk þyrfti ekki að vinna frekar en því sýndist. Björn vitnaði til tilrauna með upptöku borgaralauna, sem hefðu þvert á móti aukið atvinnuþátttöku. „Að hluta til er þetta munurinn á skerðingarframfærslunni og óskertu framfærslunni. Þegar þú ert í framfærslu sem er skert af því að þú hreyfir þig, þá hreyfir þú þig ekki. En ef þú ert með óskerta grunnframfærslu, þá græðirðu á að hreyfa þig og gerir það. Þetta eru gömlu fátækragildrurnar. Þær eru inni í öllum skerðingarkerfunum okkar, hjá öryrkjum, ellilífeyrisþegum og í raun hjá námsmönnum líka.“

Björn sagði að grunnframfærsla væri grundvöllur fyrir því að hafa í sig og á. „Og svo sértu með frelsi til athafna til að gera hvað sem þú vilt í viðbót. Það hefur einmitt skilað sér í meiri nýsköpun, meiri atvinnu, af því að fólk hefur fast land undir fótum, getur alltaf farið niður í það. Ef maður ætlar til dæmis sem tölvunarfræðingur að fara út í einhverjar nýsköpunarpælingar – það er ekki séns þegar maður er kominn með þessar skuldbindingar, fjölskyldu, börn, lán og svo framvegis. Maður gæti aldrei farið í nýsköpunargírinn af því að þá þarf maður að svelta sig dálítið og lánin eru þá farin til fjandans.“

Ólafur spurði hvort reiknað hefði verið hvað það kostaði ríkissjóð að tryggja öllum grunnframfærslu og Björn Leví svaraði því til að þetta væri framtíðarmúsík, taka ætti stutt skref í upphafi með afnámi skerðinga, hækkun persónuafsláttar og gera hann útgreiðanlegan til þeirra sem nýttu hann ekki á móti tekjum. Það kostaði 70 milljarða í heild. „Til framtíðar koma borgaralaun samhliða sjálfvirknivæðingu. Þá erum við ekki í rauninni lengur með verkafólk sem er beint að vinna með höndunum í verðmætasköpuninni eða framleiðslusköpuninni og einhvers staðar þurfum við að mata hagkerfið með fjármagni til að standa undir nýsköpun.“

– Að tiltölulega breiður hópur fólks eigi að vera á launum hjá ríkinu við að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug?

„Til dæmis. Það er í rauninni bara mjög hollt þegar allt kemur til alls og eitthvað sem ýmsir aðilar í gegnum tíðina hafa talað um sem mjög áhugaverða leið til að búa til nýtt fjármagn í kerfinu. Í stað þess að bankar geri það í gegnum lánamyndunina þá sé nýsköpun peninga í gegnum svona kerfi. Það er fyrirsjáanlegt og aðgengilegt öllum.“

Vilja efla Samkeppniseftirlitið og vinna gegn einokun
Píratar segjast vilja vinna gegn einokun og fákeppni. Ólafur spurði hvort flokkurinn vildi til dæmis afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, sem búið hefur til einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar. „Það væri fínt. Þess vegna erum við til dæmis að tala um að efla Samkeppniseftirlitið. Það á líka við um opinber fyrirtæki, það þarf stundum að huga að samkeppniseftirliti gagnvart þeim og líka þeim fyrirtækjum sem eru með einokun í krafti opinberrar verndar. Ég skil til dæmis ekki af hverju er ekki útibú Samkeppniseftirlitsins í Skagafirði, stór bækistöð sem segir heyrðu þetta er undarlegt.“

Björn Leví sagðist vel koma til greina að taka upp samkeppnismat á bæði nýrri og gildandi löggjöf. „Við viljum forðast að það komi upp fákeppni og einokun. Samkeppnisreglur eru til þess. Við þekkjum öll skaðann af því þegar fákeppnin fær að blómstra, þegar olíufélögin skiptu með sér landshlutum eins og var í gamla daga. Það er skaðlegt fyrir allt samfélagið.“

Allur fiskafli fari á markað
Innan raða FA eru margar sjálfstæðar fiskvinnslur sem kaupa allt sitt hráefni á fiskmörkuðum en hafa verið settar í erfiða samkeppnisstöðu vegna tvöfaldrar verðlagningar í sjávarútvegi, þar sem samþætt útgerðar- og vinnslufyrirtæki kaupa fisk af sjálfum sér á mun lægra verði en greitt er á fiskmörkuðum og skekkja um leið verðmyndun á markaðnum. Píratar eru með þá stefnu að allan fisk eigi að selja á fiskmarkaði og bað Ólafur þingmanninn að útlista hana nánar. „Það á að leggja niður Verðlagsstofu skiptaverðs og setja allan afla á innanlandsmarkað áður en hann er seldur eitthvert annað, þannig að menn séu ekki að fara með kannski 15 þúsund tonn í vinnslu í Póllandi eða Þýskalandi sem einhver vinnsla á Íslandi gæti séð hag sinn í að kaupa frekar og gera úr störf og verðmæti. Allar spillingarvarnir um allan heim benda á svona fyrirkomulag og segja: Hér er ójafnræði í gangi,“ sagði Björn.

Hann sagðist telja að skyldan til að setja allan afla á markað myndi standast EES-samninginn. Fiskurinn þyrfti bara að fara um innlendan markað áður en hann væri fluttur út. „Þú getur verið á skipinu og siglt út en verðmyndunin væri komin í gegnum innlenda markaðinn fyrst.“

Ólafur og Björn ræddu einnig útboðsmál, lífeyrismál, vinnumarkaðsmál, nýsköpun, skatta- og regluumhverfi fyrirtækja, ástandið á húsnæðismarkaði og fleira. Hægt er að smella á spilarann hér að ofan til að horfa á allt samtalið.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning