Samkeppniseftirlitið (SE) hefur sent menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu bréf með leiðbeiningum um fjárhagslegan aðskilnað endurmenntunar háskólanna, sem rekin er í samkeppni við einkaaðila, frá öðrum rekstri og tilmælum um að upplýsingar um slíkan aðskilnað verði birtar opinberlega. Bréf eftirlitsins kemur í framhaldi af erindrekstri Félags atvinnurekenda gagnvart ráðuneytinu, Háskóla Íslands og SE sjálfu.
Lítil viðbrögð við erindi SE fyrir fjórum árum
Forsaga málsins er sú að í framhaldi af kvörtun, sem Félag atvinnurekenda sendi Samkeppniseftirlitinu (SE) árið 2020, sendi SE menntamálaráðuneytinu (sem þá fór með málefni háskóla) erindi í maí 2021 og fór fram á við ráðuneytið að þess yrði farið á leit við opinberu háskólana að þeir birtu opinberlega upplýsingar um hvernig fjárhagslegum aðskilnaði er háttað á milli annars vegar þess rekstrar sem rekinn er að hluta til eða öllu leyti af opinberu fé og hins vegar þeirrar starfsemi sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila, í samræmi við 14. grein samkeppnislaga. „Að mati Samkeppniseftirlitsins er eðlilegt að fagráðuneyti málaflokksins geri kröfu um þetta í samhengi við fjárveitingar til viðkomandi skóla,“ sagði í erindi SE til ráðuneytisins.
Lítið gerðist í framhaldinu og háskólarnir birtu engar bókhaldsupplýsingar um samkeppnisreksturinn. FA sendi þáverandi rektor Háskóla Íslands erindi vegna málsins og fór fram á að upplýsingar um fjárhagslegan aðskilnað rekstrar Endurmenntunar HÍ, sem er í harðri samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki, yrðu birtar opinberlega. Rektor taldi fullnægjandi viðbrögð að birta tvær setningar á vef Endurmenntunar um að rekstur hennar byggi eingöngu á eigin tekjum og hún njóti engra opinberra fjárframlaga. FA hefur gert ítrekaða kröfu við HÍ, ráðuneytið og SE um að rækileg grein verði gerð opinberlega fyrir fjárhagslegum aðskilnaði Endurmenntunar frá öðrum rekstri HÍ. Frá nýjum rektor HÍ hafa borist þau svör að fyrirhugað sé að birta gögn um slíkan aðskilnað. Ráðuneytið óskaði eftir leiðbeiningum frá SE um hvernig aðskilnaðinum skyldi háttað og stofnunin hefur nú brugðist við þeirri beiðni.
Að lágmarki alger bókhaldslegur aðskilnaður
Í bréfi Samkeppniseftirlitsins er útlistað að með fjárhagslegum aðskilnaði í skilningi 14. gr. samkeppnislaga sé „að lágmarki átt við algeran bókhaldslegan aðskilnað milli annars vegar þess hluta rekstrar fyrirtækis eða stofnunar, sem lagagreinin tekur til, sem nýtur einkaréttar eða hvers konar opinberra fjárframlaga, og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í samkeppni við aðra aðila.“ Með slíkum aðskilnaði er, að sögn SE, átt við að rekstrartekjur og gjöld, og eftir atvikum eignir og skuldir, samkeppnisrekstrar, séu bókfærðar sjálfstætt og haldið aðgreindum frá bókfærðum rekstri og efnahag verndaðs rekstrar sama aðila.
„Þannig skulu allar tekjur og öll gjöld, bein og óbein sem og föst og breytileg, sem tilheyra samkeppnisrekstrinum bókfærð á þann hluta rekstursins ásamt hlutdeild í sameiginlegum kostnaði, s.s. húsnæðiskostnaði, skrifstofuhaldi, launum starfsfólks, yfirstjórn o.þ.h. Þá er einnig gert ráð fyrir að efnahag, þ.e. eignum og skuldum sem með beinum hætti tengjast samkeppnisrekstrinum, sé haldið sérstaklega til haga í bókhaldi. Með fjárhagslegum aðskilnaði eins og honum er hér lýst er reynt að tryggja að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur með fé frá verndaðri starfsemi sem meðal annars nýtur opinberra fjárframlaga,“ segir í bréfi SE.
Ófullnægjandi viðbrögð HÍ
Í bréfnu kemur fram að áðurnefnd viðbrögð HÍ séu ófullnægjandi: „Þá er mikilvægt að almenningur hafi aðgang að upplýsingum og gögnum sem sýni fram á hvernig hinum fjárhagslega aðskilnaði sé háttað og þær séu birtar opinberlega með skýrum og aðgengilegum hætti. Fullyrðing ein og sér á heimasíðu háskóla um að rekstur endurmenntunarþjónustu þess byggi eingöngu á eigin tekjum en ekki opinberum fjárframlögum, veitir almenningi ekki upplýsingar um hvort og þá hvernig aðskilnaðinum sé raunverulega háttað.“
Í bréfinu er jafnframt vitnað til leiðbeininga um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri ríkisstofnana, sem fjármálaráðuneytið gaf út 1997 og FA hefur m.a. bent ráðuneytingu og HÍ á. „Þótt leiðbeiningarnar séu að einhverju leyti komnar til ára sinna telur Samkeppniseftirlitið þau grunngildi, sem leiðbeiningarnar byggja á, enn vera í gildi og veita ágætis leiðbeiningar um hvernig skuli staðið að fjárhagslegri aðgreiningu í skilningi 14. gr. samkeppnislaga,“ segir í erindinu.
Upplýsingar verði birtar opinberlega
Í niðurlagi bréfsins er lögð áhersla á að ráðuneytið beini því til háskóla, sem njóta opinbers framlags en sinna jafnframt endurmenntunarþjónustu í samkeppni við einkaaðila, „að yfirfara og birta fullnægjandi upplýsingar opinberlega um fjárhagslegan aðskilnað á grundvelli 14. gr. samkeppnislaga. Þannig sé gengið úr skugga um að upplýst sé með greinargóðum hætti um þann rekstur sem telst til samkeppnisrekstrar, fyrirkomulag aðskilnaðarins og uppgjör.“