Samkeppnismat nái líka til landbúnaðar og sjávarútvegs

28.08.2018

Félag atvinnurekenda fagnar ákvörðun Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, um að framkvæma í samstarfi við OECD svokallað samkeppnismat á rekstrarumhverfi ferðaþjónustu og byggingariðnaðar.

OECD hefur um árabil bent á mikilvægi þess fyrir efnahag ríkja að hugað sé að áhrifum laga, reglna og stjórnvaldsákvarðana á samkeppni. Í þessu efni hefur OECD mótað verklag við svokallað samkeppnismat (Competition Assessment Toolkit). Stjórnvöld geta beitt því til að efla samkeppni eða takmarka samkeppnishindranir sem stafað geta af lögum, reglum og stjórnvaldsfyrirmælum. Þetta verklag kemur um leið í veg fyrir óþarfa reglubyrði á atvinnulíf, en slík reglubyrði felur alla jafna í sér samkeppnishindranir.

FA hefur undanfarin ár ítrekað hvatt til þess að slíku samkeppnismati sé beitt til að einfalda regluverk atvinnulífsins og meðal annars fundað um málið með fulltrúum OECD og Samkeppniseftirlitsins. Upptaka slíks samkeppnismats var ein af tillögunum í bréfi FA til Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, þar sem hvatt var til þess að stjórnvöld mótuðu nýja stefnu um einföldun regluverks atvinnulífsins.

Hlutverk stjórnvalda að passa upp á regluverkið
Í frétt frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að báðar atvinnugreinarnar sem skoða á með OECD séu mikilvægar fyr­ir ís­lenskt at­vinnu­líf og hafi staðið fyr­ir um 15% af lands­fram­leiðslu árið 2016 „Það á að vera hlut­verk stjórn­valda að passa upp á að reglu­verk at­vinnu­lífs­ins sé ekki meira íþyngj­andi en nauðsyn­legt er og því fagna ég þessu sam­keppn­ismati,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, í til­kynn­ing­u ráðuneytisins. Þar kemur einnig fram að at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið muni hafa um­sjón með verk­efn­inu í sam­vinnu við Sam­keppnis­eft­ir­litið. Verk­stjórn verði í hönd­um sam­keppn­is­deild­ar OECD. Gera má ráð fyr­ir því að verk­efnið taki 18 til 24 mánuði í fram­kvæmd auk eft­ir­fylgni að því loknu.

Víðtækar samkeppnishömlur í landbúnaði og sjávarútvegi
„Við fögnum því mjög að beita eigi samkeppnismatinu til að einfalda regluverk og efla samkeppni í þessum tveimur geirum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Augljóst og nærtækt næsta skref er að taka fyrir tvær aðrar atvinnugreinar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur á sinni könnu, það er landbúnað og sjávarútveg. Í báðum greinum eru í gildi víðtækar samkeppnishömlur og full ástæða til þess að ráðherra þess málaflokks passi líka upp á regluverkið.“

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning