Samkeppnismat taki næst til landbúnaðar og sjávarútvegs

10.11.2020

Félag atvinnurekenda fagnar eindregið nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um samkeppnismat á ferðaþjónustu og byggingariðnaði á Íslandi. Í skýrslunni eru margvíslegar tillögur um hvernig efla megi samkeppni, einfalda regluverk og draga úr samkeppnishömlum. Þannig er hægt að lækka verð til neytenda og bæta valkosti þeirra, efla framleiðni og nýsköpun og fjölga atvinnutækifærum.

Mat skýrsluhöfunda er að nái tillögur í skýrslunni fram að ganga geti það þýtt ávinning upp á 1% af landsframleiðslu, eða um 30 milljarða króna. „Innspýting af þessu tagi er einmitt eitt af því sem atvinnulífið þarf á að halda til að ná sér upp úr kórónuveirukreppunni. Skýrslan er góð, en eftirleikurinn er ekki síður mikilvægur; það þarf að hrinda tillögunum í framkvæmd til þess að leiða fram þennan ávinning, jafnvel þótt stigið sé á tær sérhagsmunahópa,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Vinnan við samkeppnismatið var sett af stað á vegum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. FA hefur hvatt til þess að samkeppnismati verði beitt á alla löggjöf um atvinnulífið og fagnar þessu fyrsta skrefi í þá átt. Félagið ítrekar tillögu sína um að í næsta skrefi verði samkeppnismati beitt á löggjöf um tvær aðrar atvinnugreinar, sem einnig heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, þ.e. landbúnað og sjávarútveg. „Bæði í landbúnaði og sjávarútvegi eru í gildi víðtækar samkeppnishömlur. Nú er frábært tækifæri til að beina sjónum að óþörfu regluverki og samkeppnishindrunum og mætti til dæmis vinna slíkt mat fyrir landbúnaðinn samhliða mótun landbúnaðarstefnu, sem nú er í gangi á vegum ráðuneytsins. Enn hefur ekki verið leyst úr þeim vandamálum sem tvöföld verðlagning í sjávarútvegi skapar hvað varðar samkeppnisumhverfi í greininni,“ segir Ólafur Stephensen.

 

 

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning