Samningaklúður ríkisins

08.12.2022

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 8. desember 2022

Í síðustu kjarasamningalotu uppástóðu ríkið og sveitarfélögin að samningar við starfsmenn þeirra rúmuðust innan rammans sem settur var með Lífskjarasamningnum. Æ fleiri vísbendingar birtast þó um að þeir hafi verið mun dýrari en látið var í skína, aðallega vegna þess að stytting vinnutíma var miklu rausnarlegri en á almenna markaðnum. Tvær slíkar vísbendingar birtust í vikunni.

Sú fyrri er nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar, þar sem lagt er til að 1,6 milljarða króna árlegt framlag vegna vinnutímastyttingar vaktavinnufólks verði fest í sessi. Kostnaður af þeirri styttingu átti að verða mestur í byrjun en svo átti að draga úr útgjaldaþörf vegna hagræðingar sem sögð var fylgja verkefninu. Fjárlaganefnd viðurkennir að sá ávinningur hafi „enn ekki raungerst“ – og kostnaðaraukinn er því varanlegur.

Sú síðari er stöðumat KPMG á verkefninu „betri vinnutími“ hjá ríkinu. Það er ekki sérlega upplífgandi lesning. Verkefninu var illa stjórnað og upphaflegu markmiðin um umbætur í rekstri og þjónustu samhliða styttingu vinnuvikunnar fóru forgörðum. „Þótt stjórnendum ríkisstofnana hafi verið ráðlagt að fara hægt í sakirnar og innleiða styttingu vinnuvikunnar í skrefum samhliða vinnu við umbætur á rekstri og þjónustu innleiddu 77% stofnana hámarksvinnutímastyttingu í fyrsta skrefi,“ segir KPMG. Sú stytting getur verið allt að 30 mínútur á dag, miðað við níu á almenna markaðnum.

Niðurstaðan varð með öðrum orðum sú að „gagnkvæmur ávinningur“ sem samið var um í upphafi varð einhliða ávinningur ríkisstarfsmanna. Í stað þess að skilvirkni ykist og þjónusta batnaði bendir margt til að þjónusta ríkisstofnana hafi versnað.

Þetta eru vinnubrögð sem einkafyrirtæki gætu aldrei leyft sér. Engu að síður eru nú – kannski skiljanlega – uppi háværar kröfur frá stéttarfélögum á almenna markaðnum um að gert verði eins og hjá ríki og sveitarfélögum. Hið opinbera klúðraði einfaldlega vinnutímastyttingunni og hefur sýnt fullkomið ábyrgðarleysi í þessu máli.

Nýjar fréttir

Innskráning