Samsiglingar gætu lækkað vöruverð

17.09.2015

Skoðum siglingar

Grein eftir Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 17. september 2015.

Gámar minni 2Íslenskt efnahagskerfi er smátt, í raun agnarsmátt en það hefur sína styrkleika og veikleika. Smæð okkar veldur því hins vegar að það er lítið rúm fyrir sóun ef ætlunin er að njóta hagsældar.

Fyrir rúmu ári skrifaði Páll Hermannsson flutningaverkfræðingur grein hér í Viðskiptablaðið þar sem hann velti upp þeim möguleika að skipafélögin fengju leyfi samkeppnisyfirvalda til „samsiglinga“, þ.e. að samnýta skip að alþjóðlegri fyrirmynd til að draga úr þeirri sóun sem felst í að sigla hálftómum skipum á milli hafna. Páll sagðist telja samkeppnislög hér á landi standa í vegi fyrir slíku samstarfi, en ávinningurinn af því gæti verið mikill. Þannig mætti gera ráð fyrir að með samsiglingum á leiðum, sem þegar er samkeppni á, gæti heildarflutningskostnaður lækkað um 10%, sem aftur leiddi til verðlækkana á innfluttum vörum og þar með á vísitölu neyzluverðs. 

Í framhaldi af greininni og viðtali við Pál í Morgunblaðinu skrifaði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, grein í Morgunblaðið og hafnaði því að samkeppnisyfirvöld eða –lög stæðu í vegi fyrir slíku samstarfi. Páll ítrekaði þar að Samkeppniseftirlitið gæti veitt undanþágu fyrir samstarfi fyrirtækja sem ella væri ólögmætt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þar á meðal að fyrirtækin gætu sýnt fram á ábata samstarfsins og að atvinnulífið og neytendur nytu hans. Samstarfið mætti ekki eingöngu koma fyrirtækjunum til góða en skaða neytendur.

Þessi umræða náði ekki frekara flugi í framhaldi af greinaskrifum þeirra nafna fyrir rúmu ári, heldur lognaðist út af. Núna er full ástæða til að taka hana upp á nýjan leik. Fordæmi eru fyrir því að samkeppnisyfirvöld veiti skipafélögum undanþágur af þessu tagi og sama á við í öðrum geirum. Skemmst er að minnast þess að fjarskiptafyrirtækin Vodafone og Nova fengu heimild til samstarfs um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu, gegn ýtarlegum skilyrðum um að samstarfið raski ekki samkeppni á farsímamarkaðnum.

Ef skipafélögin, í samráði við Samkeppniseftirlitið, geta fundið lausn sem gagnast atvinnulífinu og neytendum og vinnur gegn verðbólgunni er rétti tíminn núna til að leita að henni.

Nýjar fréttir

Innskráning