Næsta örnámskeið: Samskipti keppinauta – hvað má og hvað er bannað?

31.10.2023

Næsta örnámskeið FA verður haldið fimmtudaginn 9. nóvember kl. 10 á Teams. Umfjöllunarefnið er að þessu sinni hvað sé heimilt og óheimilt í samskiptum keppinauta á markaði. 

Fyrirlesarinn er Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður FA. Hann mun m.a. fjalla um samskipti keppinauta með hliðsjón af nýlegri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í samráðsmáli stóru skipafélaganna og eldri ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.

Mega framkvæmdastjórar fyrirtækja sem eru í samkeppni vera saman á golfmóti eða í veiðitúr? Er illa séð ef þeir eru saman í vinahópi eða Rótarýklúbbi? Að hverju þarf að gæta í félagslegum samskiptum utan vinnutíma? Hvaða reglur gilda um fundi og nefndastörf á vegum félagasamtaka fyrirtækja? Hvenær ber að upplýsa Samkeppniseftirlitið um tiltekin samskipti eða tengsl?

Örnámskeið FA eru stutt vefnámskeið, haldin á Teams með svokölluðu 20+10-fyrirkomulagi; 20 mínútna fyrirlestur og svo tíu mínútur til að svara spurningum og ábendingum. Þannig er markmiðið að stjórnendur þurfi ekki að taka sér meira en hálftíma í hvert námskeið. Námskeiðin henta framkvæmdastjórum, mannauðsstjórum og fleiri stjórnendum. Þau eru opin félagsmönnum í FA og haldin kl. 10-10.30.

Skráning á námskeiðið er hér að neðan. Skráðir félagsmenn fá sent fundarboð með hlekk með góðum fyrirvara.

Skráning á námskeið – samskipti keppinauta (#14)

Nýjar fréttir

Innskráning