Samstarf ÍKV við CFNA eflt

19.11.2018
Jónína Bjartmarz og Bian Zhenhu (fyrir miðju) undirrita viljayfirlýsinguna. Mynd: CFNA

Jónína Bjartmarz, formaður Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, sem FA hýsir og rekur, skrifaði fyrr í mánuðinum undir viljayfirlýsingu um aukið samstarf viðskiptaráðsins og Matvælaviðskiptaráðs Kína (China Chamber of Commerce of Foodstuffs and Native Produce, CFNA).

Undirritunin fór fram í Sjanghæ, á Samstarfsráðstefnu Kína og Norðurlanda um viðskipti og efnahagsmál (2018 China-Nordic Economic and Trade Cooperation Forum), en bæði ÍKV og CFNA voru á meðal aðstandenda ráðstefnunnar. Bian Zhenhu, forseti CFNA, undirritaði viljayfirlýsinguna ásamt Jónínu. Viljayfirlýsingin velur í sér aukið samstarf ráðanna og gagnkvæma aðstoð við aðildarfyrirtæki, með það að markmiði að efla viðskipti með sjávarafurðir og landbúnaðarvörur milli Íslands og Kína. ÍKV og CFNA áttu árangursríkt samstarf á dögunum þegar haldið var málþing um matvöruviðskipti ríkjanna í Reykjavík.

Viðstaddir undirritunina voru meðal annars Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Kína, og kínverskir, sænskir og norskir ráðherrar og aðstoðarráðherrar. Fleiri viljayfirlýsingar milli kínverskra og norrænna fyrirtækja og samtaka voru undirritaðar á ráðstefnunni eins og lesa má á vef CFNA.

Yfir 100 manns sátu samstarfsráðstefnu Kína og Norðurlandanna í Sjanghæ. Mynd: CFNA

Nýjar fréttir

Innskráning