Sautján daga bið eftir forskráningu notaðra bíla

26.05.2016

Bilar i SundahofnSamgöngustofa hefur svarað erindi Félags atvinnurekenda frá 13. maí, þar sem stofnunin var hvött til að stytta á ný þann tíma sem tekur að afgreiða umsókn um forskráningu ökutækja sem flutt eru til landsins. FA benti á að löng bið eftir forskráningu bifreiða ylli fyrirtækjum sem flyttu inn bíla, til dæmis bílaleigum, verulegu tjóni.

Í svari Þórhildar Elínar Elínardóttur, samskiptastjóra Samgöngustofu, er vísað til þess að innflutningur ökutækja hafi vaxið mjög undanfarin ár. Fjárframlög til reksturs stofnunarinnar hafi ekki tekið mið af því og við bætist árstíðabundið álag í innflutningi ökutækja þessar vikurnar.

Samgöngustofa segir að við þessu hafi verið brugðist með hagræðingu, breyttu verklagi og aðstoð starfsfólks úr öðrum deildum. Þessar aðgerðir hafi skilað „stórauknum afköstum við forskráningar“. Þannig sé afgreiðslutími vegna skráninga gerðarviðurkenndra (nýrra) ökutækja nú 2-3 dagar eins og áður var. Mikill innflutningur hafi hins vegar orðið til þess að afgreiðslutími forskráninga skráningarviðurkenndra (notaðra) ökutækja sé „lengri“ enda um mun sérhæfðari skráningu að ræða. Sá hluti sé þó aðeins brot af heildarinnflutningi.

Vísar Samgöngustofa til upplýsinga frá Bílgreinasambandinu um að stærstu innflytjendunum, bílaumboðunum, beri saman um að mikil breyting hafi orðið til batnaðar og sé afgreiðslufresturinn nú ásættanlegur. „Engu að síður leitar Samgöngustofa áfram allra leiða til að stytta verkferla og bæta þjónustu, enda allra hagur að hún sé skilvirk og góð.“

Hjálpar innflytjendum notaðra bíla ekki neitt
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að félagið fagni því að Samgöngustofa hafi náð að stytta afgreiðslutíma vegna forskráningar nýrra bíla. „Það hjálpar innflytjendum notaðra bíla, sem eru til dæmis bílaleigur, hins vegar ekki neitt. Notaðir bílar eru líklega um 10% af bílainnflutningnum. Við höfum glæný, staðfest dæmi um að afgreiðslutími vegna notaðra bíla hefur verið allt upp í sautján daga, sem er þremur dögum meira en sá tími sem Samgöngustofa áskilur sér lengstan til að afgreiða umsóknir. Fyrir nokkrum misserum tók þetta ferli 1-2 daga, líka fyrir notuðu bílana,“ segir Ólafur.

Hann gagnrýnir að Samgöngustofa skuli afsaka sig með auknum bílainnflutningi. „Þeirri aukningu hafði verið spáð fyrirfram. Ef stofnanir ríkisins sem þjónusta atvinnulífið geta ekki lagað sig að slíkum breytingum, sem eru algerlega fyrirséðar, er ástæða til að endurskoða vinnubrögðin,“ segir Ólafur.

Svarbréf Samgöngustofu

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning