SE samþykkir undanþágubeiðni FA vegna smærri lyfjaverslana

27.03.2020

Samkeppniseftirlitið (SE) hefur samþykkt beiðni Félags atvinnurekenda um tímabundna undanþágu frá samkeppnislögum vegna samstarfs smærri lyfjaverslana, í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar.

Smærri lyfjaverslanir geti haldið áfram rekstri
FA sendi  SE beiðni um undanþágu síðastliðinn miðvikudag og benti ma. á að alvarlegt gæti reynst ef lyfjaverslanir, ekki síst einyrkjar og smærri lyfjaverslanir, þyrftu að loka vega COVID-19, bæði m.t.t. til almannahagsmuna og þess að við slíka lokun væri stoðunum kippt undan viðkomandi rekstri. Smærri lyfjaverslanir væru að þessu leyti í lakari stöðu en stærri lyfjakeðjur sem geti við lokun afgreiðslustöðvar bent viðskiptavinum sínum á næstu opnu verslun innan samstæðunnar. Mikilvægt væri að einyrkjar og smærri lyfjaverslanir gætu lifað þetta ástand af, því það þjóni hagsmunum allra landsmanna að heilbrigð samkeppni ríki á lyfsölumarkaði.

Í erindinu var rakið að til þess tryggja stöðu einyrkja og smærri lyfjaverslana og jafnframt stuðla að heilsu landsmanna væri óskað eftir að lyfjaverslunum sem hafa færri en þrjá sölustaði yrði heimilt að viðhafa samstarf sín á milli. Umbeðið samstarf fæli í sér að ef lyfjaverslun þurfi að loka sökum COVID-19, geti forsvarsmenn hennar bent á aðrar lyfjaverslanir um tímabundna þjónustu. Þá sé einnig nauðsynlegt að lyfjaverslunum sem falla undir undanþáguna sé heimilt að deila upplýsingum sín á milli um birgðastöðu lyfja svo hægt sé að vísa einstaklingum á lyfjaverslun sem sannanlega á lyfin til. Með þessum hætti sé smærri lyfjaverslunum gert kleift að keppa við stærri lyfjakeðjur.

Undanþágan skapar svigrúm
SE leitaði umsagnar Lyfjastofnunar um undanþágubeiðnina og kom fram að af hálfu Lyfjastofnunar hafi m.a. verið lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja aðgengi að lyfjabirgðum og jafnframt aðgengi notenda að þeim. Umrædd undanþága skapi aukið svigrúm og úrræði til þess að bregðast við erfiðum og mögulega óvæntum aðstæðum sem upp geti komið við þær aðstæður sem nú ríkja. Sömuleiðis sé mikilvægt að tryggja að til staðar sé yfirsýn yfir þær aðgerðir sem grípa þarf til.

Að öllu framangreindu virtu veitir Samkeppniseftirlitið umbeðna undanþágu fyrir samskiptum og samstarfi lyfjaverslana sem eru með einn eða tvo sölustaði, að því er fram kemur í ákvörðun stofnunarinnar. „Taka ber skýrt fram að heildarmarkmið þessarar undanþágu er að vinna gegn því að ástand og aðstæður vegna COVID-19 hafi þau áhrif að keppinautum fækki og samkeppni minnki á markaði fyrir smásölu lyfja samhliða því að búa í haginn fyrir nauðsynlegt aðgengi að lyfjum,“ segir í ákvörðuninni.

Nær einnig til minni lyfjaverslana utan FA
„Tekur undanþágan til allra lyfjaverslana undir framangreindum mörkum, óháð því hvort viðkomandi verslanir séu aðilar að FA. Undir undanþáguna falla aðeins aðgerðir sem miða að því að samstarfsaðilar geti haldið sölustöðum opnum, eða vísað viðskiptavinum til annarra verslana þegar tímabundnar lokanir eru óhjákvæmilegar, án þess að þær sem loka sölustað missi viðskiptasambönd sín til lengri tíma.“  Undanþágan tekur einnig til framangreinds samstarfs á vettvangi FA, sbr. 12. gr. samkeppnislaga.

Ákvörðunarorð Samkeppniseftirlitsins eru eftirfarandi:

„Í samræmi við 15. gr. samkeppnislaga veitir Samkeppniseftirlitið hér með lyfjaverslunum sem eru með einn til tvo afgreiðslustaði undanþágu fyrir samstarfi sem aðeins miðar að því að samstarfsaðilar geti haldið sölustöðum opnum, eða vísað viðskiptavinum til annarra lyfjaverslana innan hópsins þegar lokanir eru óhjákvæmilegar, án þess að verslanir sem loka sölustað missi viðskiptasambönd sín til lengri tíma. Tekur undanþágan jafnframt til samstarfs á vettvangi FA sem miðar að hinu sama, sbr. 12. gr. samkeppnislaga.

1. gr.

Undanþágan tekur í fyrsta lagi til þess að lyfjaverslanir með einn til tvo sölustaði geti átt sér samskiptavettvang þar sem unnt sé að kanna leiðir til að bregðast við yfirstandandi vanda tengdum COVID-19.

Samskipti skv. 1. mgr. eru bundin þeim skilyrðum að haldin sé skrá yfir samskiptin hvort sem þau fara fram á vettvangi FA eða annars staðar. Nauðsynlegt er að aðili með þekkingu á samkeppnisrétti sé viðstaddur slík samskipti.

Miðlun á samkeppnislega mikilvægum upplýsingum á slíkum vettvangi eða almennt á milli þeirra sem undanþágan tekur til er óheimil.

2. gr.

Í öðru lagi tekur undanþágan til þess að lyfjaverslanir innan hópsins, t.d. 2-4 verslanir, hafi með sér samstarf, sem t.d. getur falið í sér tímabundna lokun sölustaða.

Samstarf skv. 1. mgr. skal skjalfest. Í þeim samningi skal vera tæmandi lýsing á samstarfinu, þ.á m afmörkun samstarfsins.

Samningur skv. 1. mgr. skal tilkynntur Samkeppniseftirlitinu og Lyfjastofnun, sem eiga þess þá kost að gera athugasemdir við hann.

3. gr.

Lyfjastofnun skal vera þátttakandi eða gefinn kostur á að vera þátttakandi í öllum samskiptum sem lúta að undirbúningi og skipulagningu samstarfs sem spretta kann af undanþágunni skv. 1. og 2. gr. Með þeim hætti er tryggt að Lyfjastofnun hafi yfirsýn yfir viðkomandi samstarf og geti tryggt að farið sé að þeim kröfum sem settar eru í starfseminni.

4. gr.

Allt samráð um verð og viðskiptakjör er óheimilt. 

5. gr.

Undanþágan gildir til 30. maí 2020. Samkeppniseftirlitið getur framlengt undanþáguna ef nauðsyn krefur.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 15/2020
Fréttatilkynning Samkeppniseftirlitsins

Nýjar fréttir

Innskráning