Sem næst full fríverslun við Bretland eftirsóknarverð

17.10.2017

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að Ísland ætti að stefna að því sem næst fullri fríverslun við Bretland. Eina viðkvæma atriðið varðandi tollaniðurfellingu séu landbúnaðarvörur, einkum þá mjólkurvörur og nautakjöt, en aðrar kjöttegundir séu ekki eins viðkvæmt mál. Verksmiðjubúskap eigi ekki að vernda hvað sem það kostar.

Þetta var á meðal þess sem fram kom á fundi Félags atvinnurekenda í morgun um þýðingu Brexit – útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu – fyrir fyrirtækin.

Bretland mun beita sér fyrir aukinni fríverslun

Michael Nevin.

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, dró saman í þrjú atriði boðskap sinn á fundinum: Í fyrsta lagi væru bresk stjórnvöld metnaðargjörn; þau áttuðu sig á að nú væri óvissutímabil en framtíðarmarkmiðið væri alþjóðleg útrás Breta fremur en að Bretland ætlaði að hverfa inn í sjálft sig. Nevin sagði að Bretland myndi beita sér fyrir því að hleypa nýju lífi í fríverslunarviðræður á alþjóðavettvangi, en undanfarin ár hefði verndarstefna færst í vöxt á ný.

Í öðru lagi vildi Bretland sérstakt samband við Evrópusambandið, samstarf sem væri nánara en nokkurt annað ríki hefði við ESB, þar með talið í viðskiptamálum. Það væri í þágu beggja. Nevin sagði að Bretar íhuguðu tvær lausnir í tollamálum; annars vegar að nútímavæða og straumlínulaga tollafgreiðslu allra vara inn í Bretland þannig að það yrði sem auðveldast fyrir öll ríki að eiga í viðskiptum við bresk fyrirtæki. Hins vegar væri verið að skoða að semja þannig við ESB að Bretland gæti að hluta til komið fram fyrir hönd sambandsins þannig að vörur sem hefðu verið tollafgreiddar í Bretlandi ættu greiða leið inn á markaði ESB. Þetta hefði enn ekki verið rætt við Evrópusambandið, þar sem ESB væri enn upptekið af viðræðum um skilnaðinn við Bretland og ekki reiðubúið að skoða framtíðarfyrirkomulag samskiptanna.

Í þriðja lagi sagði Nevin að Bretar vildi halda sem allra nánustum samskiptum við Ísland. Fyrsta skrefið í því væri að tryggja samfellu í samskiptunum, að sem minnst breyttist í sambandi ríkjanna. Næsta skref væri að leita nýrra tækifæra. Það ætti ekki aðeins við um viðskipti, heldur jafnframt samstarf um önnur alþjóðamál, öryggis- og varnarmál og vísindi og nýsköpun. Fyrra skrefið væri flókið vegna EES-aðildar Íslands. Hægt væri að sjá fyrir sér röð tvíhliða samninga, en það ætti eftir að koma í ljós hvernig þeir tengdust EES-samningnum.

Mikið í húfi fyrir Ísland

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði að hagsmunaaðilar í Bretlandi og ríkjum ESB hefðu skiljanlega áhyggjur af að nýjar viðskiptahindranir myndu rísa á milli ríkjanna. Fyrirtækin gætu tapað miklu á slíku. Það væri erfitt að útskýra fyrir kjósendum að þeir ættu að missa störfin sín af því að Evrópusambandið vildi gera fordæmi úr Bretum og refsa þeim fyrir útgönguna til þess að önnur ríki íhuguðu ekki að fara sömu leið. Ef hagsmunaaðilar mættu ráða, yrðu engar nýjar viðskiptahindranir settar upp á milli Bretlands og ESB, en stjórnmálamenn væru hugsanlega á öðru máli.

Guðlaugur sagði að mikið væri í húfi fyrir Ísland, enda væri Bretland annar stærsti markaður Íslendinga. Ísland vildi halda sem nánustum tengslum við Bretland og til þessa hefðu öll merki frá breskum stjórnvöldum verið afar jákvæð. Leita þyrfti nýrra tækifæra í stöðunni. Þrátt fyrir að bæði Ísland og Bretland ættu nú aðild að EES-samningnum væru enn tollar á sumum vörum í viðskiptum milli ríkjanna og skoða mætti hvernig hægt væri að fella þá niður. Ráðherrann sagði að samningur Íslands og Bretlands um fulla fríverslun væri að sjálfsögðu eftirsóknarverður. Það eina sem Íslendingar væru viðkvæmir fyrir í viðræðum um slíkan samning væru landbúnaðarvörur, en sumar væru þar viðkvæmari en aðrar. Þegar Guðlaugur var beðinn að útskýra þau ummæli sín nánar sagði hann að auðveldlega mætti draga þá ályktun af samningnum um aukna fríverslun, sem síðasta ríkisstjórn gerði við Evrópusambandið, að lambakjöt væri ekki viðkvæmt mál. Fugla- og svínakjöt væri ekki viðkvæmt mál fyrir landið allt. Viðkvæmu vörurnar væru mjólkurvörur og nautakjöt. Þetta væri mál sem þyrfti að ræða í meiri smáatriðum. Íslendingar vildu halda áfram að framleiða góðar mjólkur- og kjötvörur, en verksmiðjubúskap ætti ekki að vernda hvað sem það kostaði að sínu mati.

Fundur FA var ágætlega sóttur.

Guðlaugur benti á að af EFTA-ríkjunum væri Ísland opnast fyrir fríverslun, með fæst „rauð ljós“. Utanríkisviðskiptastefna Íslands væri mun frjálslyndari en hjá Evrópusambandinu, 90% tollnúmera væru tollfrjáls, samanborið við 26% hjá ESB.

Verður að vera pólitískur vilji
Guðlaugur þakkaði FA fyrir að efna til þessarar umræðu og sagði að því miður væri alltof lítið rætt um utanríkismál í aðdraganda kosninganna. Þessi fundur væri eitt af fáum tækifærum til að ræða þau mikilvægu mál. Hann gagnrýndi meðal annars Ríkisútvarpið fyrir að gefa utanríkismálum ekki gaum í kosningaumfjöllun sinni. Hann benti á að þótt stefna núverandi ríkisstjórnar varðandi Brexit hefði ekki verið gagnrýnd, væri engin leið að vita hvað mörgum stjórnmálaflokkum fyndist um stefnu Íslands í málinu, þar sem þeir hefðu komist hjá að ræða hana í neinum smáatriðum. Sú vinna, sem þyrfti að vinna vegna Brexit, yrði ekki að veruleika ef pólitíska forystu skorti.

Á fundinum var annars vegar dreift upplýsingum frá breska sendiráðinu um stöðu Brexit-viðræðnanna og hins vegar splunkunýrri skýrslu utanríkisráðuneytisins um utanríkisviðskipti Íslands og þátttöku í fríverslunarviðræðum EFTA. Nálgast má þau skjöl hér að neðan. Vakin er athygli á að í dreifiriti sendiráðsins eru fyrirtæki hvött til að senda ábendingar og viðbrögð til bresku utanríkisþjónustunnar.

Fundurinn var í beinni útsendingu á Facebook-síðu FA og má horfa á upptöku af honum í spilaranum hér að neðan.

Dreifirit breska sendiráðsins um Brexit

Skýrsla um utanríkisviðskipti Íslands

Nýjar fréttir

Innskráning