Sér ekki fyrir endann á gengislánavanda

09.09.2015

Enn af gengislánum 

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Markaði Fréttablaðsins 9. september 2015. 

MyntkarfaFélag atvinnurekenda vakti síðastliðið vor athygli á stöðu gengislána fyrirtækja. Sjö árum eftir hrun, að gengnum um 200 héraðsdómum og 70 Hæstaréttardómum um gengislán, er enn ágreiningur um gríðarlegar fjárhæðir á milli bankanna og fyrirtækja sem tóku gengislán fyrir hrun. Þessi staða stendur mörgum fyrirtækjum fyrir þrifum og dregur úr þeim kraftinn til sóknar og fjárfestinga.

Samkvæmt úttekt sem unnin var fyrir FA voru gengislán upp á um 547 milljarða króna enn í ágreiningi í byrjun þessa árs. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) báru brigður á þessa tölu og segja lán í ágreiningi nær 100 milljörðum. Ekki voru þó lögð fram nein gögn frá bönkunum sem staðfesta þá fullyrðingu. Vandinn við að meta umfangið nákvæmlega liggur einmitt í því að bankarnir og Fjármálaeftirlitið hafa ekki viljað gefa upplýsingar um stöðu mála.

Bankarnir veita ekki upplýsingar
Vonir um að umræðan yrði til þess að auka upplýsingagjöf um stöðu gengislánanna af hálfu stóru viðskiptabankanna urðu að engu í byrjun sumars, þegar fjármálaráðuneytið birti svar sitt við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns um stöðu gengislánanna. Bankarnir neituðu allir að gefa þær upplýsingar sem ráðuneytið fór fram á fyrir hönd Alþingis.

Stærstur hluti gengislána fyrirtækja er í Landsbankanum og flestir hæstaréttardómar vegna þeirra hafa jafnframt fallið í ágreiningsmálum ríkisbankans og viðskiptavina hans. Það hefur þó ekki dugað til að leysa mál fjölmargra fyrirtækja. Bankinn hefur stuðzt við mjög hæpna túlkun á dómi Hæstaréttar í máli Haga ehf. gegn Arion banka, þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Hagar hefðu vegna stærðar sinnar og sérþekkingar á fjármálum ekki verið í aðstöðumun gagnvart bankanum eða viðbótarkrafa bankans valdið fyrirtækinu þeirri fjárhagslegu röskun að fullnaðarkvittanareglan svokallaða gilti gagnvart fyrirtækinu. Í henni felst að viðkomandi félag hafi samkvæmt kvittunum staðið skil á vöxtum og afborgunum og verði ekki krafið um frekari vexti, þ.e. almenna óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands sem voru mjög háir, fóru hæst í 21% um tíma.

Hæpin túlkun og gengur ekki jafnt yfir alla
Landsbankinn virðist hafa ákveðið að miða við skilgreiningu Evrópusambandsins á litlu fyrirtæki, með minna en u.þ.b. 1,5 milljarða króna veltu, þegar ákveðið er hvaða fyrirtæki eigi að njóta fullnaðarkvittanareglunnar. Fyrirtæki sem eru með meiri veltu eru þá samkvæmt túlkun bankans  ekki í aðstöðumun gagnvart honum, burtséð frá eðli starfseminnar. Í því felst að mikill fjöldi fyrirtækja á Íslandi, þar með talin smærri fyrirtæki sem hafa enga sérþekkingu á lánamálum, eru ekki talin vera í aðstöðumun gagnvart bankastofnunum.

Þessi túlkun á dómi Hæstaréttar orkar augljóslega mjög tvímælis. Ofan á það bætist að henni virðist ekki vera haldið fram jafnt gagnvart öllum viðskiptavinum bankans. Félagi atvinnurekenda hafa þannig borizt ábendingar, studdar gögnum, um að fyrirtæki sem eru vel yfir veltumörkunum hafi fengið að njóta fullnaðarkvittanareglunnar og fengið lán sín endurútreiknuð á grundvelli hennar, um leið og sambærileg fyrirtæki af svipaðri stærð eru sett í flokk með Högum og ekki talinn hafa verið aðstöðumunur á þeim og bankanum þegar gengið var frá gengisláninu.

Sér ekki fyrir endann á vandanum
Mörgum fyrirtækjaeigendum hefur komið spánskt fyrir sjónir að samkvæmt niðurstöðum dómstóla fái sambærileg gengislán fyrirtækja í sambærilegri stöðu, jafnvel keppinauta, mjög ólíka meðferð eftir formsatriðum í lánasamningum. Þegar við það bætist að dómar Hæstaréttar eru enn túlkaðir með hæpnum hætti af lánastofnunum og jafnvel ekki eins gagnvart sambærilegum fyrirtækjum er augljóst að við sjáum ekki fyrir endann á þeim vandræðum sem gengislánin valda enn íslenzku viðskiptalífi.

Grein Ólafs Stephensen á Vísi

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning