Setur framkvæmdavaldið lögin?

06.03.2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 6. mars 2021.

Vandræðagangur ríkisapparatsins í kringum vondan rekstur, rangar ákvarðanir og samkeppnishamlandi framferði ríkisfyrirtækisins Íslandspósts hefur verið sögulegur. Ekki átti greinarhöfundur þó endilega von á því að meðvirknikast stjórnmála- og embættismanna færi að snúast um grundvallaratriði í stjórnskipan ríkisins fyrr en hann las Morgunblaðið fyrr í vikunni.

Þar hélt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið því nefnilega fram, í skriflegu svari til blaðsins, að það skýra ákvæði póstlaganna að verðskrá fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna væri „ekki að öllu leyti virkt“. Þetta væri vegna þess að Alþingi hefði bætt inn í lögin ákvæði um að sama verð ætti að vera á alþjónustu um allt land.

Nú er það svo að á Íslandi gildir þrískipting ríkisvaldsins eins og í öðrum vestrænum lýðræðis- og réttarríkjum. Handhafar framkvæmdavaldsins setja ekki lögin og geta ekki ákveðið að eigin geðþótta að víkja þeim til hliðar, í heild eða að hluta. Það virðist þó hafa gerzt í þessu tilviki.

Eftirlitsstofnunin hlýðir túlkun ráðuneytisins
Greinarhöfundur furðaði sig á því í grein sem birtist hér í blaðinu í síðustu viku, að Póst- og fjarskiptastofnun virtist hafa gleymt áðurnefndu lagaákvæði. Í febrúar á síðasta ári krafði PFS Íslandspóst um að sýna fram á að ný gjaldskrá fyrir pakkasendingar stæðist ákvæði laganna um raunkostnað. Ári síðar birti stofnunin rúmlega 40 blaðsíðna ákvörðun um greiðslur til Póstsins, þar sem undirverðlögð pakkagjaldskráin kemur mjög við sögu, án þess að nefna þetta grundvallaratriði löggjafarinnar einu orði!

Það er nú skýrara en áður að eftirlitsstofnun, sem á að vera sjálfstæð í störfum sínum, hefur látið ráðuneytið segja sér að búið sé að taka hluta af lögum landsins úr sambandi og hún þurfi ekki að líta til þeirra. Ráðuneytið staðfestir opinberlega að þetta sé skilningur þess. Það er vandséð hvernig ákvörðun PFS á að geta staðið óhögguð – að minnsta kosti hlýtur að vera ákaflega hæpið að Alþingi samþykki rúmlega 500 milljóna króna framlag til Póstsins af fé skattgreiðenda á grundvelli hennar. Umboðsmaður Alþingis hefur væntanlega einhvern tímann hnippt í stjórnsýsluna af minna tilefni.

Eins og Hörður Felix Harðarson lögmaður útskýrir ágætlega í viðtali í blaðinu í gær, ber að virða ákvæði í lögum, jafnvel þótt hægt sé að halda því fram að ákveðnir erfiðleikar séu á að framfylgja þeim – sem virðist þó ekki vera í þessu tilviki, enda lögin skýr. „Ef það á að vera ein og sama gjaldskráin fyrir allt land hlýtur að þurfa að horfa til meðalkostnaðar í þeirri dreifingu og horfa þá þannig á verðlagninguna,“ segir Hörður og er óhætt að taka undir þá túlkun.

Boltinn er hjá ráðherranum
Ef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og undirstofnanir þess telja að vankantar séu á póstlögunum af hálfu Alþingis hlýtur Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra að flytja frumvarp hið snarasta um breytingu á lögunum. Það er hin stjórnskipulega rétta leið, í stað þess að ráðherrann og undirmenn hans grípi fram fyrir hendurnar á löggjafanum. Það er svo sjálfstætt álitaefni að þegar ráðuneytið fór í að velja hvaða lögum ætti að fara að og hvaða lögum ekki varð fyrir valinu sú túlkun sem hefur hvað neikvæðust áhrif á samkeppni og hagsmuni neytenda.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning