Sex af stærstu sveitarfélögunum lækka skatt á atvinnuhúsnæði

02.12.2022

Sex af tólf stærstu sveitarfélögum landsins lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði til að mæta mikilli hækkun fasteignamats, samkvæmt frumvörpum til fjárhagsáætlana eða samþykktum fjárhagsáætlunum fyrir næsta ár. Garðabær var það síðasta af stærstu sveitarfélögunum til að samþykkja lækkun á skattprósentum á fimmtudaginn. FA fagnar því að svo mörg sveitarfélög hafi orðið við áskorunum félagsins um lækkun skatthlutfalla, en telur að fleiri hefðu mátt gera slíkt hið sama, sérstaklega Reykjavíkurborg, sem innheimtir um helming fasteignaskatta á landinu.

Breytingar á fasteignasköttum, bæði fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði, má sjá í töflunni hér að neðan. Í töflunni má sjá hversu mikið álagður fasteignaskattur hefði hækkað án breytinga á skattprósentunni, þ.e. vegna hækkunar fasteignamats, og hver skattahækkunin verður á sömu eignum miðað við lækkun skattprósentu þar sem það á við.

Sjá má að eitt sveitarfélag sem lækkar álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lætur ógert að lækka skatta á atvinnuhúsnæði, en það er Fjarðabyggð. Gífurlegar hækkanir fasteignamats og þar með fasteignaskatta eiga sér stað í Árborg, þar sem skattprósenturnar verða óhreyfðar á milli ára.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, bendir á að þrátt fyrir breytingar á skattprósentum fái öll sveitarfélögin drjúgan tekjuauka vegna fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. „Það sem stingur mest í augu er að Reykjavíkurborg skuli ekki hreyfa skattprósentuna. Það þýðir að fyrirtæki í Reykjavík greiða 1,7 milljörðum króna meira í fasteignaskatt á næsta ári en þessu ári,“ segir Ólafur.

Hann segir að FA muni halda áfram að berjast fyrir breytingum á kerfi fasteignaskatta þannig að þeir verði gegnsæir og skiljanlegir og elti ekki sveiflur í eignaverði eins og nú er.

Nýjar fréttir

Innskráning