Sjö af tólf fjölmennustu sveitarfélögum landsins munu lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði um áramótin, samkvæmt fram komnum frumvörpum til fjárhagsáætlana. Félag atvinnurekenda skoraði fyrr á árinu á öll sveitarfélög í landinu að lækka skatthlutfallið og fagnar þessum árangri, þótt félagið telji að gera megi mun betur.
Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í gær tillögu um að lækka fasteignaskatt fyrirtækja úr 1,52% af fasteignamati í 1,49% og liggja þá áform allra tólf stærstu sveitarfélaganna fyrir. Breytingar á hlutföllum fasteignaskatts, bæði á íbúðar- og atvinnuhúsnæði, í þessum sveitarfélögum þar sem um 83% landsmanna búa, sjást í töflunni hér að neðan. Þar kemur jafnframt fram hvað fasteignaskattur í sveitarfélaginu hækkar að meðaltali miðað við breytingar á fasteignamati milli ára, annars vegar að óbreyttu skatthlutfalli og hins vegar miðað við breytta skattprósentu (grænu tölurnar).

Mesta lækkun skatthlutfallsins er í Garðabæ (0,03%) og í Múlaþingi (0,025%). Eina sveitarfélagið af þessum tólf, sem verður áfram með fasteignaskatt á fyrirtæki í lögbundnu 1,65% hámarki, er Fjarðabyggð. Lægstur verður skatturinn hins vegar á Seltjarnarnesi, 1,1540% af fasteignamati.
Eins og sjá má eru svö sveitarfélög, Reykjanesbær og Mosfellsbær, sem lækka skatta á íbúðarhúsnæði en ekki atvinnuhúsnæði og tvö sveitarfélög, Akranes og Hafnarfjörður, lækka skattinn á atvinnuhúsnæði eingöngu. Í tilviki Akraness er lækkunin svo smávægileg að hún þýðir sáralitla breytingu á skattbyrði fyrirtækjanna, sem hækkar um meira en 9%. Þrátt fyrir lækkun álagningarhlutfalls fá sum sveitarfélög engu að síður í sinn hlut hækkun fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði sem er vel umfram verðbólgu, t.d. Akranes, Árborg, Akureyri og Múlaþing.
Nauðsynlegt að ræða breytt kerfi
„Við fögnum því auðvitað að meirihluti stærstu sveitarfélaganna lækki fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og mæti þannig stöðugum hækkunum á fasteignamati, þótt við hefðum kosið meiri lækkanir,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Við höfum einnig fengið jákvæð viðbrögð frá ýmsum smærri sveitarfélögum.“
Ólafur segir að betur megi ef duga skal. „Í áskoruninni sem við sendum sveitarfélögunum í júní, voru þau hvött til að taka upp viðræður við ríkisvaldið um um breytt kerfi skattlagningar fasteigna með minni sveiflur og meiri fyrirsjáanleika að markmiði. Við ítrekum að nauðsynlegt er að fara í slíka vinnu,“ segir Ólafur.

Reykjavík dregst aftur úr
Hann segir að það valdi verulegum vonbrigðum að enn eitt árið hafi Reykjavíkurborg, sem innheimtir um helming fasteignaskatta í landinu, daufheyrst við áskorunum atvinnulífsins um lækkun skatthlutfallsins. „Það er orðinn verulegur munur á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í höfuðborginni og nágrannasveitarfélögunum. Reykjavík hefur dregist aftur úr og það kemur að sjálfsögðu niður á samkeppnishæfni borgarinnar,“ segir Ólafur.