Sjö mánaða þögn ráðuneytis um tilmæli Samkeppniseftirlitsins

03.06.2016

KeflavikurflugvollurFélag atvinnurekenda hefur ítrekað fyrirspurn sína til Ólafar Nordal innanríkisráðherra, um það til hvaða aðgerða ráðuneytið hafi gripið til að tryggja virka samkeppni við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Samkeppniseftirlitið beindi tilmælum til ráðherra 22. október 2015, í framhaldi af kvörtun Wow Air. Engin viðbrögð við tilmælunum hafa komið frá innanríkisráðuneytinu í meira en sjö mánuði, að minnsta kosti ekki opinberlega.

FA sendi ráðherra bréf 26. febrúar síðastliðinn. Þar var rifjað upp að Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli raskaði samkeppni, til tjóns fyrir viðskiptavini, keppinauta í áætlunarflugi og samfélagið allt.

Í álitinu var þeim tilmælum beint til ráðherra að hún beiti sér fyrir „tafarlausum aðgerðum sem miði að því að draga úr þeim samkeppnishindrunum sem skilgreindar hafa verið í áliti þessu. Við þær aðgerðir verði hagsmunum almennings af virkri samkeppni í áætlunarflugi gefinn forgangur.“

Stutt er síðan Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hvatti íslensk stjórnvöld til að ganga harðar fram til að tryggja samkeppni og styðja betur við samkeppnisyfirvöld. Úthlutun brottfarartíma í Keflavík var eitt þeirra dæma sem stofnunin tiltók sérstaklega.

Í bréfi FA til ráðherra, sem sent var í dag, eru spurningarnar frá því í febrúar ítrekaðar: „Í ljósi þess að nú fer mesti annatíminn á Keflavíkurflugvelli í hönd og fjöldi innlendra og erlendra flugfélaga þarfnast úthlutunar á afgreiðslutíma leyfir FA sér að ítreka fyrri spurningar sínar til ráðherra:

  • Hefur ráðherra beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr samkeppnishindrunum við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli?
  • Ef svo er, hvaða aðgerðum?
  • Ef ekki, hvers vegna ekki?“

Fyrra erindi FA til innanríkisráðherra

ítrekunarbréf FA til innanríkisráðherra

 

 

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning