Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 28. febrúar 2019.
Morgunblaðið lýsir í leiðara síðastliðinn laugardag yfir andstöðu við að íslenzk stjórnvöld fari að dómum Hæstaréttar Íslands og EFTA-dómstólsins um að þau hætti brotum á EES-samningnum og leyfi innflutning á fersku kjöti og eggjum, í samræmi við samningsskuldbindingar sínar. Frumvarp landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem efnislega gengur út á að fara að niðurstöðum dómstólanna, kallar blaðið uppgjöf í baráttu gegn heilbrigðisvá.
Í leiðaranum segir: „Félag atvinnurekenda hefur haldið því fram að þetta mál snúist aðeins um að verja sérhagsmuni bænda. Áhyggjum af heilbrigðismálum er svarað með skætingi um að þá verði að banna fólki að fara til útlanda og koma frá útlöndum.“
Skuldbindingar ríkisins
Höfum það sem sannara reynist. Það eru ekki dómstólar sem ákveða upp úr þurru hvað íslenzka ríkið eigi að gera. Ríkið undirgekkst sjálft ákveðnar skuldbindingar án þess að nokkur sneri upp á höndina á því. Dómstólar hafa aðeins kveðið upp dóma um að íslenzka ríkið verði að standa við það sem það sjálft skuldbindur sig til að gera en tæplega var einlægur eða raunverulegur vafi þar um. Það dugar því hvorki að benda á dómstóla, Evrópusambandið né „heildsala“ enda ekki til þess bærir aðilar að ráðstafa hagsmunum íslenska ríkisins. Það breytir því ekki að það er réttmæt og eðlileg ráðstöfun að viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu með matvörur séu sem frjálsust, um leið og öryggi þeirra matvæla er tryggt.
Sjúkdómar koma frekar með fólki en kjöti
Í umræðum um þetta mál hefur Félag atvinnurekenda í fyrsta lagi vísað til þeirrar vísindalegu ráðgjafar, sem íslenzk stjórnvöld fengu er þau sömdu á sínum tíma um að fersk matvæli, jafnt búvörur sem sjávarafurðir, yrðu í fersku flæði á Evrópska efnahagssvæðinu, án heilbrigðiseftirlits á landamærum eða sérstakrar veitingar innflutningsleyfa. Niðurstaða Halldórs Runólfssonar, þáverandi yfirdýralæknis, í umsögn til Alþingis var eftirfarandi: „Eins og málum er nú háttað þá eru, að mati yfirdýralæknis, meiri líkur á að hingað berist framandi dýrasjúkdómar með fólki heldur en með löglega innfluttu hráu kjöti. Ekki eru miklar líkur á að lýðheilsu verði stefnt í aukna hættu með umræddum breytingum, að því gefnu að gerðar verði ráðstafanir til að stemma stigu við innflutningi á kjúklingakjöti menguðu af kamfýlóbakter.“
Frystiskyldan er lítil vörn
FA hefur sömuleiðis vísað til skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi, sem út kom í maí 2017. Niðurstaða skýrsluhöfunda, sem voru meðal annars sóttvarnalæknir og yfirdýralæknir, er að lítil hætta sé á að bakteríur, sem ónæmar eru fyrir sýklalyfjum, berist í fólk með neyzlu búfjárafurða, þar sem þær eru yfirleitt soðnar eða steiktar fyrir neyzlu. Meiri líkur séu á að sýklalyfjaónæmar bakteríur berist í fólk með grænmeti, þar sem það sé yfirleitt borðað ferskt. Innflutningur á grænmeti hefur þó verið frjáls áratugum saman, án þess að það hafi komið niður á góðri stöðu Íslands hvað varðar sýklalyfjaónæmi.
Jafnframt kom fram í skýrslunni að frystiskylda á innfluttu kjöti – sem frumvarp landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra gerir ráð fyrir að verði afnumin – hafi lítil áhrif á aðrar sýklalyfjaónæmar bakteríur en kamfýlóbakter. Frystiskyldan er með öðrum orðum ekki sú vörn gegn bakteríum sem margir, þar á meðal Morgunblaðið, hafa látið skína í.
Þá var í skýrslu hópsins bent á að sýklalyfjaónæmar bakteríur geti auðveldlega dreifzt með ferðamönnum sem komi frá svæðum þar sem hlutfall ónæmis er hátt. Stóraukinn ferðamannastraumur og aukin ferðalög Íslendinga auki því áhættuna hér á landi. Meðal tillagna starfshópsins er að unnið verði að því að minnnka áhættu á dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería með ferðamönnum, meðal annars með því að bæta hreinlætisaðstöðu á ferðamannastöðum.
Vísindaniðurstöður standa óhraktar
Félag atvinnurekenda hefur í þriðja lagi vitnað til skýrslu, sem tveir sérfræðingar á vegum Food Control Consultants, með sérmenntun í dýralækningum og smitsjúkdómum og áratuga reynslu á sviði matvælaeftirlits og -öryggis víða um heim, unnu fyrir félagið. Niðurstaða skýrsluhöfunda, byggð á langri reynslu og nýjustu vísindarannsóknum, er að ekki séu haldbær rök fyrir því að innflutningur á ferskum búvörum muni hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra. Ekki virðist heldur hægt að fullyrða að innflutningur á þessum vörum muni hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería. Almennt virðist lítil tengsl á milli sýklalyfjaónæmis í dýrum og í fólki. Aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum.
Þær vísindaniðurstöður, sem vísað er til í skýrslunni, hafa ekki verið hraktar. Þess má geta að þótt Morgunblaðið hafi verið afar áhugasamt um röksemdir þeirra, sem eru andvígir því að farið sé að dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar, hefur blaðið ekki birt einn staf um þessa skýrslu í fréttum sínum.
Viðbótartryggingar minna íþyngjandi leið
FA beindi meðal annars til höfunda skýrslunnar þeirri spurningu hvort stjórnvöld gætu gripið til aðgerða til að takmarka hættu á mögulegum neikvæðum áhrifum innflutnings ferskvöru, sem væru minna íþyngjandi en bann við innflutningi á fersku kjöti. Í svari skýrsluhöfunda kemur fram að hin norrænu ríkin fjögur hafi fengið svokallaðar viðbótartryggingar vegna viðskipta með matvæli, sem þýðir að að taka þarf sýni af viðkomandi vörusendingum og gefa út vottorð um að varan sé ekki menguð, t.d. af salmonella. Þetta er sú leið sem landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fara hvað varðar salmonellu og kamfýlóbakter, eins og fram kemur í umræddu frumvarpi. Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar samþykkt viðbótartryggingar varðandi salmonellu.
Sýklalyfjaónæmar bakteríur í innlendu kjöti
Loks hefur FA bent á að sýklalyfjaónæmar bakteríur finnast einnig í innlendu kjöti, samkvæmt fyrstu mælingum Matvælastofnunar í krafti reglna um eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum sem önnur EES-ríki tóku upp nokkrum árum á undan Íslandi. Innflutningstakmarkanir útiloka þannig alls ekki þá áhættu, sem kann að vera fyrir hendi.
Veltur ekki á kjötinu
Samandregið hefur Félag atvinnurekenda fært rök fyrir því að það sé fullkomlega ómálefnalegt að setja hlutina fram eins og Bændasamtök Íslands, Morgunblaðið og Framsóknarflokkurinn gera; að það velti á því að innflutningur á fersku kjöti verði áfram bannaður hvort verja megi íslenzkan almenning fyrir þeirri vá, sem vaxandi sýklalyfjaónæmi er. Þessi umræða er miklu flóknari en svo og nær til miklu fleiri þátta. Þrátt fyrir það sem að framan greinir; að áhættan af auknum ferðalögum milli landa, fersku grænmeti og ófullnægjandi frárennslismálum sé meiri en af innflutningi kjöts, hefur engum dottið í hug að leggja til að setja hömlur á ferðafrelsi fólks eða grænmetisinnflutning. Og til dæmis sveitarstjórnum, sem vanrækja að gera bragarbót á frárennslismálum, eru ekki valin sömu skammaryrðin og þeim sem vilja leyfa frjáls viðskipti með ferskar búvörur.
Það er hægt að vinna gegn sýklalyfjaónæmi án þess að leggja óþarfar hömlur á frjáls milliríkjaviðskipti. Það gerist ekki sízt með eftirliti, forvörnum á borð við fræðslu um rétta meðhöndlun matvæla, ábendingum til ferðamanna um hreinlæti og umgengni við búfénað og ábyrga notkun sýklalyfja – og síðast en ekki sízt með samstarfi við önnur Evrópuríki um varnir, eftirlit og viðbótartryggingar.
Innlegg Félags atvinnurekenda í umræðuna um heilbrigðismál og innflutning ferskvöru hefur verið málefnalegt og byggt á áreiðanlegum upplýsingum og gögnum, eins og ofangreind dæmi sýna vel. Morgunblaðið hefur lítið lagt á sig til að gera þeim sjónarmiðum skil á síðum sínum. Hvers vegna leiðarahöfundur kýs að kalla þennan málflutning skæting er í þessu ljósi illskiljanlegt – en kannski verður það útskýrt í næsta leiðara um þetta mikilvæga mál.