Skagfirzka hagfræðin

14.12.2024

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 14. desember 2024

Reimar Marteinsson, rekstrarstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, skrifar ljómandi skemmtilega og afhjúpandi grein í Morgunblaðið sl. fimmtudag, í tilefni af viðtali við undirritaðan sem birtist á Stöð 2 og Vísi. Umfjöllunarefnið var þátttaka innlendra afurðastöðva í útboðum á tollkvóta til að flytja inn kjötvörur og áhrif hennar á samkeppni og verðlag. Hjá því verður ekki komizt að gera fáeinar athugasemdir við skrif Reimars.

Hvatt til samkeppnishindrana?
Í fyrsta lagi virðist Reimar ekki hafa lesið eða hlustað almennilega á viðtalið við greinarhöfund. Hann skrifar: „Telur hann [greinarhöfundur] því best að útiloka þessi fyrirtæki [afurðastöðvarnar] frá útboði og þar með minnka samkeppni við önnur fyrirtæki sem stunda innflutning (félagsmenn FA) um tollkvóta, sem eru takmörkuð gæði. Slík aðgerð væri reyndar skólabókardæmi um samkeppnishindranir.“

Í viðtalinu ítrekaði undirritaður þá tillögu FA, Neytendasamtakanna og ýmissa fleiri, að tollkvótum til að flytja inn búvörur verði úthlutað ókeypis. „Þar með væri þetta vandamál úr sögunni, að innlendir framleiðendur spili á kerfið til að hindra samkeppni við sjálfa sig,“ var haft eftir undirrituðum. M.ö.o. engar samkeppnishindranir þar, heldur breytt kerfi sem væri bæði verzlun og neytendum til góða og kæmi í veg fyrir að innlendar afurðastöðvar byðu hátt í tollkvótann til að halda uppi verði á innflutningi og vernda eigin vörur fyrir samkeppni.

Útboðsgjaldið hækkar verð
Í öðru lagi setur Reimar fram línurit um þróun útboðsgjalds fyrir tollkvóta á föstu verði, sem á að sýna fram á mikla lækkun þess. Hann velur hins vegar að hafa með í grafinu tollkvótaútboðin sem fóru fram áður en stækkun tollkvóta samkvæmt tollasamningi Íslands og ESB var að fullu komin til framkvæmda. Eðlilega lækkaði tollkvóti í verði þegar framboðið stórjókst af honum, en eftir að samningurinn kom að fullu til framkvæmda hefur útboðsgjaldið almennt farið hækkandi á ný. Innlendar afurðastöðvar hafa hagsmuni af því að bjóða hátt og ýta þannig upp útboðsgjaldinu fyrir markaðinn í heild. Lykilatriðið hér er að við innflutningsverð á kílói af nautakjöti leggst 597 króna útboðsgjald vegna þess fyrirkomulags, sem íslenzk stjórnvöld hafa kosið að hafa við úthlutun tollkvótanna. Við kílóverð á svínakjöti leggst 420 króna gjald og við kíló af alifuglakjöti 587 krónur. Þetta stuðlar að hærra verði til neytenda.

Skila lækkanir á innkaupsverði sér ekki til neytenda?
Þá komum við að þriðju athugasemdinni við málflutning Reimars. Hann segir að „allir sem kunna hagfræði“ viti að verð á tollkvóta stýri ekki verði á neytendamarkaði, heldur fari það eftir framboði og eftirspurn. „Verðið á tollkvótunum hefur einungis áhrif á það hvernig hagnaður af innflutningi skiptist milli innflytjenda og ríkissjóðs,“ segir Reimar. Þessar nýstárlegu hagfræðikenningar, þ.e. að innkaupsverð vöru, þar með talin álagning skatta og gjalda, hafi engin áhrif á verð hennar til neytenda, afhjúpa fyrst og fremst viðskiptahætti Kaupfélags Skagfirðinga. Við vitum þá að KS lætur ekki viðskiptavini sína njóta hagstæðari kjara sem félagið fær á innkaupum. Á markaði þar sem hörð samkeppni ríkir, eins og í innflutningi matvöru, skila hins vegar innflutningsfyrirtæki og verzlanir lækkunum tolla og annarra gjalda til neytenda, eins og er margstaðfest í opinberum gögnum.

Ef hagfræðikenning Reimars væri rétt, ætti KS og öðrum afurðastöðvum líka að vera slétt sama þótt tollkvóta væri úthlutað án endurgjalds af því að það hefði engin áhrif til lækkunar á verði innflutnings. Það er auðvitað ekki tilfellið; afurðastöðvarnar vita sem er að útboðsfyrirkomulagið er í raun verndaraðgerð fyrir innlenda framleiðslu og leggjast gegn öllum breytingum á því.

Hagur verzlunar og neytenda fer saman
Í fjórða lagi kallar Reimar tillögur FA „grjótharða sérhagsmunagæslu örfárra eigenda innflutningsfyrirtækja“ sem sé komin út fyrir öll mörk og ekki neytendum í hag. Í þessum efnum fer hagur verzlunar og neytenda þvert á móti saman, eins og sést vel á því að Neytendasamtökin hafa gert sambærilegar tillögur og FA; það er að tollkvóta til innflutnings á búvörum skuli úthlutað án endurgjalds. Þannig væri náð hinum upprunalegu markmiðum alþjóðasamninga, sem kveða á um gagnkvæma tollkvóta, þ.e. að efla samkeppni og lækka verð til neytenda.

KS stígur fram sem harður talsmaður innflutnings
Í fimmta lagi er upplýsandi og afhjúpandi að rekstrarstjóri Kaupfélags Skagfirðinga skuli vera jafngrjótharður talsmaður kjötinnflutnings afurðastöðva og raun ber vitni. Þessu  ber að fagna, því að KS hefur stundum viljað láta líta út fyrir að það sé andvígt innflutningi á kjötvörum. Aðalfundur KS í fyrra ályktaði að KS og dótturfélög þess ættu ekki að standa í innflutningi búvara. Ályktuninni var vel tekið af stjórnendum KS og Esja Gæðafæði, dótturfélag kaupfélagsins, hætti að bjóða í tollkvóta. Hins vegar dúkkaði upp nýr bjóðandi, Háihólmi, sem í síðasta tollkvótaútboði tryggði sér 172 tonn af tollkvóta til að flytja inn kjöt og er með umsvifamestu innflytjendum á markaðnum. Eigandi Háahólma er jafnframt innkaupastjóri Esju Gæðafæðis. Háihólmi er með öðrum orðum leppur fyrir KS, sem bætir bara í innflutning sinn á kjöti þrátt fyrir aðalfundarályktunina. Nú þegar KS er opinberlega orðið eindreginn talsmaður kjötinnflutnings afurðastöðva, er þá ekki rétt að hætta þessum feluleik?

Skaupið samið á Króknum
Í sjötta lagi er bráðfyndið að sjá talsmann KS tala af nánast heilagri vandlætingu um meinta aðför Félags atvinnurekenda að samkeppni og atvinnufrelsi. Kaupfélagið, í samvinnu við aðrar afurðastöðvar, þrýsti mjög á Alþingi að breyta búvörulögunum síðastliðið vor til að þær fengju víðtæka undanþágu frá samkeppnislögum. Þannig myndu forsvarsmenn þeirra komast án nokkurra afleiðinga upp með athæfi, sem keppinautar þeirra gætu fengið allt að sex ára fangelsisrefsingu fyrir. Að rekstrarstjóri KS sveipi sig nú kufli postula samkeppni og atvinnufrelsis er gott grín og greinilega miklu meiri húmor og hugmyndaauðgi á Króknum en hjá handritshöfundum áramótaskaupsins undanfarin ár.

Nýjar fréttir

14. desember 2024

Innskráning