Skattpeningar til Möltu?

19.01.2023

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 20. janúar 2023.

Í Heimildinni í síðustu viku var sögð einkar áhugaverð saga af Mata-fjölskyldunni, studd opinberum gögnum og heimildum. Þar voru m.a. rakin samkeppnisbrot, tilraunir til skattasniðgöngu og flóknar fléttur erlends eignarhalds, sem gera fjármögnun og rekstur fyrirtækjaveldisins afar ógegnsæjan.

Eigendur Mata eiga Matfugl og Ali og eru önnur tveggja fjölskyldna sem bera höfuð og herðar yfir aðra í framleiðslu alifugla- og svínakjöts. Hin er eigendur Stjörnugríss. Alifugla- og svínarækt er verksmiðjubúskapur, aðallega stundaður í grennd við þéttbýli og að stórum hluta í eigu áðurnefndra tveggja fjölskyldna. Þar er ólíku saman að jafna við sauðfjár- og nautgriparækt á fjölskyldubúum í dreifðum byggðum. Engu að síður er látið eins og þessi starfsemi verðskuldi tollvernd á kostnað neytenda, rétt eins og hefðbundinn landbúnaður. Í áðurnefndri umfjöllun Heimildarinnar var vitnað til nokkurra ára gamals mats á því að tollvernd jafngilti tveggja og hálfs milljarðs króna ríkisstyrk til Mata-fjölskyldunnar. Finnst okkur það í lagi?

Fjallað var um Mata-veldið á forsíðu fyrsta tölublaðs Heimildarinnar.

Er það líka í lagi að eigendur Mata og Stjörnugríss komist upp með að misnota kerfi útboðs á tollkvótum fyrir búvörur? Meiningin með því að semja við Evrópusambandið og fleiri um gagnkvæmar tollfrjálsar innflutningsheimildir var að efla samkeppni og lækka matarverð. Þessi tvö fyrirtæki bjóða hátt í útboðum og ná meirihluta svínakjöts- og alifuglatollkvótans. Þannig hindra þau samkeppni við sjálf sig og geta stýrt verðinu.

Sú spurning hlýtur líka að vera áleitin hvort hinn tollverndaði verksmiðjubúskapur eigi að eiga sama rétt og smærri bú á ríkisstyrkjum vegna hækkandi aðfanga. Matvælaráðherra hefur auglýst til umsóknar 450 milljóna króna styrki til svína-, alifugla- og eggjaframleiðslu til að „mæta auknum kostnaði framleiðenda við fóðuröflun vegna mikilla og ófyrirséðra verðhækkana.“ Telja stjórnvöld sig hafa umboð til að setja hundruð milljóna af skattfé inn í hina dularfullu hringrás peninga Mata-fjölskyldunnar milli Íslands og Möltu?

Nýjar fréttir

Innskráning