Ríkisskattstjóri hefur haft til skoðunar leið sem getur undið ofan af svokölluðum öfugum samruna og endurheimt samkeppnishæfni fyrirtækja sem fengu endurálagningu skatta vegna slíks samruna. Málflutningsstofa Reykjavíkur og Félag atvinnurekenda hafa unnið að því að finna lausn á þessum vanda og funduðu meðal annars með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í byrjun ársins til að kynna mögulegar leiðir sem færar væru. Vinna við þetta verkefni heldur því áfram.
Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað um þá lausn sem unnið er að og rætt við Pál Rúnar M. Kristjánsson, hæstaréttarlögmann á MSR og lögmann FA. „Í stuttu máli felst lausnin í því að vinda ofan af samrunanum. Hún felst í því að aðskilja aftur skuldirnar og reksturinn í tvö sjálfstæð félög, og samskatta svo félögin eða sameina þau í breyttri mynd. Í síðara tilfellinu er farið í samruna viðtökufélagsins við móðurfélagið,“ segir Páll þar.
Haft er eftir Páli að flest fyrirtæki ættu að geta nýtt sér þessa leið, en hann hafi þegar fengið tvö bindandi álit frá Ríkisskattstjóra sem heimila báðar þessar lausnir. Páll segir að klæðskerasauma þurfi leiðina fyrir hvert og eitt fyrirtæki, en sem slík ætti hún að vera aðgengileg fyrir öll fyrirtæki sem hafa lent í endurálagningu skatta vegna öfugs samruna, þar sem dótturfélag yfirtekur móðurfélag.
Frekara tjóni afstýrt
Páll segir að sá kostnaður sem hafi þegar fallið til sé líklega sokkinn kostnaður í mörgum tilfellum, en með þessari lausn sé hins vegar hægt að afstýra frekara tjóni og gera félögum aftur kleift að lækka tekjuskattstofn með því að draga vaxtagjöld frá. Fyrirtæki gætu þá straumlínulagað rekstur sinn og bætt samkeppnishæfni sína.
Í frétt Viðskiptablaðsins er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA: „Markmið okkar var að koma í veg fyrir þetta tjón sem var þarna að ágerast innan fyrirtækja og gera það innan þess lagaramma sem nú er í gildi, með aðferðum félagaréttarins. Það er búið að setja upp mismunandi hugmyndir, funda með ráðherra og leita bindandi álita. Og núna virðist þetta að vera að takast, sem er mikið hagsmunamál fyrir mörg fyrirtæki.“