Skattur á óskýra hugsun

27.06.2019
Skatturinn er ekki sykurskattur, heldur skattur á sumar vörur með sykri, sætuefnum og sítrónusýru.

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 27. júní 2019.

Heilbrigðisráðherra vill leggja sykurskatta á gos og sælgæti, samkvæmt tillögum sem er að finna í aðgerðaáætlun Landlæknisembættisins um hvernig draga megi úr sykurneyzlu.

Það vekur athygli á hversu lélegum gögnum Landlæknir byggir tillögur sínar. Fullyrðingar, sem ráðherrann heldur á lofti, um að þriðjungur sykurneyzlu landans komi úr gosdrykkjum, virðast byggðar á mistúlkunum á sjö til átta ára gömlum gögnum. Félag atvinnurekenda benti ráðherranum á þetta bréflega fyrir ári, þegar hún setti fram hugmyndir um sérstakan skatt á gos, og rakti sömuleiðis hvernig Landlæknir hefur afþakkað samtal um hvernig megi byggja umræðuna á réttum gögnum. Við þessu bréfi bárust engin svör og ráðherrann heldur áfram að veifa gamalli og rangri tölu.

Beinharðar sölutölur sýna að á síðustu fjórum árum hefur dregið stórlega úr sölu sykraðra gosdrykkja en á móti hefur sala sykurlausra drykkja með sætuefnum og vatnsdrykkja aukizt hröðum skrefum. Úreltar tölur Landlæknis ná ekki utan um þessa þróun og embættið viðurkennir í raun að nota gamlar tölur og ekki séu til peningar til að afla nýrra.

Engu að síður leggur embættið til að sykurskatti verði skellt á gos og sælgæti til að hækka verð þeirra um 20% og svo verði tekjurnar af skattinum notaðar til að kosta mælingar á árangrinum. En hvað er fólk þá að mæla? Hina sjálfsprottnu breytingu á neyzluháttum eða áhrif skattsins?

Landlæknir vill bara skattleggja sumar vörur með sykri. Hann vill til dæmis sleppa öllum dísætu mjólkurvörunum, kexinu og sætabrauðinu. Þar við bætist að það á ekki bara að skattleggja sykur, heldur líka gosdrykki með sætuefnum og sem innihalda sítrónusýru. Þannig er skatturinn ekki sykurskattur, heldur skattur á sumar vörur með sykri, sætuefnum og sítrónusýru.

Er eitthvert vit í þessu? Myndi hjálpa að leggja skatt á óskýra hugsun?

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning