Skatturinn ógegnsæi og endalausi

30.10.2019

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 30. október 2019.

Atvinnuhúsnæði í Kópavogi.

Há fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði skekkja samkeppnisstöðu íslenzks viðskiptalífs. Fasteignaskattar sem hlutfall af landsframleiðslu eru hæstir á Íslandi á öllum Norðurlöndum eða um 2%, tvöfalt hærri en í háskattalandinu Svíþjóð þar sem þeir eru um 1%. Þetta var á meðal þess sem fram kom á fundi Félags atvinnurekenda, Húseigendafélagsins og Landssambands eldri borgara um fasteignagjöld í síðustu viku.

Þessi samtök, sem samanlagt endurspegla mjög breiðan hóp fasteignaeigenda, vildu leitast við að ná eyrum stjórnmálamanna, ekki sízt í sveitarstjórnum, en fasteignaskattar eru tekjustofn sveitarfélaga. Tímapunkturinn er ekki tilviljun; nú er stutt í að frumvörp til fjárhagsáætlana sveitarfélaga verði lögð fram, en þau innihalda meðal annars tillögur um álagningarprósentu fasteignaskatta.

Það er orðin vel þekkt staðreynd að skattlagning á atvinnuhúsnæði hefur farið mjög hækkandi undanfarin ár. Fasteignaskatturinn er tiltekið hlutfall af fasteignamati, en mat atvinnuhúsnæðis á landinu hækkaði um u.þ.b. 77% á árunum 2014 til 2020. Þótt sum sveitarfélög hafi lækkað álagningarprósentu til að mæta þessum gríðarlegu hækkunum matsins nemur hækkun skattbyrði atvinnulífsins vegna fasteignaskatts á þessum tíma um 70%. Það skiptir miklu máli í þessari mynd að stærsta sveitarfélagið, þar sem yfir 35% alls atvinnuhúsnæðis er að finna, hefur allan tímann haldið fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í lögbundnu hámarki, þótt álagningarprósenta á íbúðarhúsnæði hafi verið lækkuð til að sýna eigendum þess sanngirni.

Sveitarfélögin láta stundum eins og þau beri enga ábyrgð á sífellt þyngri skattbyrði vegna fasteignaskatta. Það er út af fyrir sig rétt að fasteignamatið, sem skatturinn er reiknaður út frá, er byggt á grundvelli laga frá Alþingi. Einn vandinn við að nota þá aðferð til að leggja á skatt, er að útreikningur matsins er gífurlega flókinn og ekki á færi annarra en sérfræðinga að skilja hann. Á áðurnefndum fundi komu fram dæmi um að erfiðleikum væri bundið að fá skýr svör frá fasteignamati Þjóðskrár um það hvernig mat tiltekinna eigna væri reiknað út. Það er óhætt að segja að skattur, sem skattgreiðandinn getur ekki skilið hvernig er reiknaður út og því síður séð fyrir hversu hár verður, sé vondur skattur.

Á endanum eru það þó auðvitað sveitarfélögin sem bera alla ábyrgð á skattbyrðinni, enda ákveða þau álagningarprósentuna. Sveitarfélög, sem ætla enn eina ferðina að yppa öxlum og segja: „Við gerðum ekkert, við lögðum bara sömu prósentu og venjulega á fasteignamatið, það er ekki okkur að kenna að það hækkaði“ – þau hlaupast frá þeirri ábyrgð sem stjórnvöld og atvinnulífið bera sameiginlega á verðstöðugleika í kjölfar erfiðra kjarasamninga.

Hækkanir fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði koma nefnilega ekki bara fram á greiðsluseðlum fasteignagjaldanna. Þær velta út í verðlagið með ýmsum hætti í formi hækkunar á vörum og þjónustu fyrirtækja, sem verða með einhverjum hætti að standa undir sífellt hækkandi skattbyrði. Fyrirtæki og einstaklingar sem leigja út húsnæði neyðast iðulega til að hækka leiguna vegna hærri fasteignaskatta, enda nema þeir oftast nokkurra mánaða leigu yfir árið. Það galnasta við núverandi kerfi er að vegna þess að fasteignamat Þjóðskrár beitir svokallaðri tekjumatsaðferð, hækkar fasteignamatið þegar leigan hækkar, sem veldur aftur hækkun á fasteignamatinu og þannig koll af kolli.

Atvinnulífið getur ekki staðið undir enn meiri hækkunum á fasteignasköttum. Til skemmri tíma litið þurfa sveitarfélögin að axla ábyrgð og lækka álagningarprósentuna. Til lengri tíma litið þarf að skera upp þetta kerfi. Í byrjun árs skrifaði Félag atvinnurekenda Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra bréf og hvatti hann til að taka upp viðræður við sveitarfélögin um kerfisbreytingu. Ráðherrann hefur sýnt nauðsyn slíkrar breytingar skilning og æskilegt væri að eitthvert frumkvæði að slíku kæmi líka frá sveitarfélögunum. Allt hugsandi fólk hlýtur að sjá að núverandi ástand gengur ekki til lengdar.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning